Leynd svipt af fundargerðum

Víglundur Þorsteinsson.
Víglundur Þorsteinsson. Kristinn Ingvarsson

Víglundur Þorsteinsson, sem jafnframt er fyrrverandi stjórnarformaður BM Vallár, hefur sent fjölmiðlum afrit af fundargerðum sem hann fékk afhent um vinnu stýrinefndar ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur sem samdi við erlenda kröfuhafa bankanna á árinu 2009.

Fundargerðirnar eru frá tímabilinu frá 20. mars til 4. ágúst 2009. Þær eru því frá tíma minnihlutastjórnar Samfylkingar og VG, sem Framsóknarflokkurinn varði vantrausti, og frá myndun fyrstu vinstri stjórnar lýðveldistímans, ríkisstjórnar VG og Samfylkingar.

Fundargerðirnar eru númeraðar og vantar þá fyrstu og fundargerð númer 13, samkvæmt þeim gögnum sem Víglundur hefur áframsent fjölmiðlum.

„Alvarleg lögbrot“ stýrinefndarinnar

Eins og fram hefur komið er nokkuð um liðið síðan Víglundur óskaði fyrst eftir gögnunum. Hann segir í tilkynningu til fjölmiðla að fundargerðirnar bendi til „alvarlegra lögbrota“ áðurnefndrar stýrinefndar. 

„Það hefur tekið mig tæp 3 ár að slíta þessar og aðrar upplýsingar út úr fjármálaráðuneytinu. Verður að segja eins og er að embættismenn þar á bæ hafa gert allt sem þeim var unnt til að tefja málavinnsluna. Hundsað alla fresti látið vera að sinna leiðbeiningaskyldu ofl. Sýnist mér að þar á bæ megi margt lagfæra í samskiptum við okkur borgarana og umgengi við stjórnsýslu og upplýsingalög.

Eftir yfirferð fundagerðanna og fyrri gagna sem ég fékk með fyrri úrskurðum Úrskurðarnefndar um upplýsingamál tel ég að öll gögn bendi til þess að nefndin hafi í störfum sínum framið alvarleg lögbrot.“

Alþingi kalli eftir frekari gögnum

Víglundur hefur snúið sér til Alþingis.

„Í framhaldinu ákvað ég að rita bréf til Alþingis og afhenda því fundargerðirnar með beiðni um að það hlutist til um athugun þessa máls og kalli til viðbótar eftir öllum þeim fjölda gagna sem málið varðar og ég hef ekki fengið afhent.

Þá hef ég hvatt til þess að fundargerðirnar sem voru ritaðar á ensku verði þýddar og birtar almenningi í samræmi við viðhorf Úrskurðarnefndar um upplýsingamál.“

Kostar þjóðina 300 milljarða

„Mér sýnist sem allt starf þessarar nefndar hafi miðað að því að hækka skuldabyrði heimila og fyrirtækja í þágu erlendu vogunarsjóðanna með þáttöku og hlutdeild þeirra sjóða. Sú hækkun umfram reglur neyðarlaganna við stofnun nýju bankanna sýnist mér varlega talið nemi um 300 milljörðum.

Það munar um minna. Þessi fjárhæð er í dag um 17 % af VLF og orðinn sérstakur viðbótarþröskuldur sem tefur fyrir endurreisn íslenska hagkerfisins og heldur niðri lífskjörum í landinu,“ skrifar Víglundur í tilkynningunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert