Hópur kennara úr Flensborgarskólanum í Hafnarfirði lagði niður störf í morgun til að fara á þingpalla, en þar fór fram umræða um málefni framhaldsskólana. Skólameistari skólans segir það almennt ekki tíðkast að kennsla falli niður, hafi starfsfólk hug á að fylgjast með þjóðfélagsumræðunni.
„Ég hef ekki hugsað mér að gera mál úr þessu,“ segir Magnús Þorkelsson, skólameistari Flensborgarskólans. „Þarna var hópur kennara sem vildi fara niður eftir til að fylgjast með þessu. Ég man ekki eftir því að eitthvað svona hafi gerst áður.“
Er ásættanlegt fyrir nemendur að kennarar leggi niður störf vegna þess að það er umræða á Alþingi sem þeir hafa áhuga á? „Þetta er eitthvað sem hluti af kennarahópnum ákvað að gera,“ segir Magnús.
Mikill fjöldi var á þingpöllum í morgun, en mbl.is er ekki kunnugt um að kennsla hafi legið niðri í fleiri framhaldsskólum vegna þessa. Um var að ræða sérstaka umræðu um framhaldsskólana, málshefjandi var Svandís Svavarsdóttir þingflokksformaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs og fyrir svörum sat Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra.