„Vildi ekki fara og var sett í járn“

Geðdeild Landspítala-háskólasjúkrahúss við Hringbraut.
Geðdeild Landspítala-háskólasjúkrahúss við Hringbraut. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Fanney Halldórsdóttur, móðir geðsjúkrar konu, sagði frá reynslu sinni af því að þurfa að samþykkja og verða síðan vitni af því þegar barn hennar var fjarlægt af heimili sínu og nauðungarvistað á geðdeild á málþingi Geðhjálpar, Hvers virði er frelsið?, í dag. Áherslur málþingsins voru sjálfræðissviptingar, nauðung og valdbeiting í geðheilbrigðisþjónustu.

Bera fór á geðröskunum hjá Ágústu Körlu dóttur hennar um tvítugt. Í dag er hún fjörutíu og fjögurra ára og hefur á rúmum tuttugu árum verið nauðungarvistuð fjórum sinnum og gefið frá sér uppeldi barna sinna fjögurra.  Ágústa ræddi við Morgunblaðið í dag og sagði sögu sína.

„Veikindi Ágústu byrjuðu mjög snemma. Hún var aðeins 21 árs þegar hún fór fyrst inn á geðsjúkrahús en smátt og smátt hafði sigið á seinni hliðina, sagði Fanney. Hún lýsti óttanum sem fylgdi því að sjá dóttur sína í þessu ástandi og vita af henni þar sem hún sat heima og starði út í loftið og vissi ekkert hvar hún væri stödd. „Það fannst mér hræðilegt,“ sagði Fanney í erindi sínu.

Fanney sagði að þegar hún og aðrir hefðu heimsótt Ágústu hefði hún ekki kært sig um það og gaf þegar í stað í skyn að hún vildi losna við gestina. Hún varð sífellt veikari og fór að sögn Fanneyjar í geðrof og sturlunarástand. Fanney segir að erfitt hafi verið að koma dóttur sinni inn á geðdeild og því hafi þurft að beita sjálfssviptingu.

Alvarlegt mál að svipta annan mann sjálfræði

„Mér fannst hræðilegast að þurfa að upplifa hvernig hún tók þessu, átökin, hrópin og orðin sem voru svo hræðileg,“ sagði Fanney þegar hún rifjar daginn þegar Ágústa var vistuð á geðdeild gegn sínum eigin vilja í fyrsta skipti. „Hún vildi ekki fara inn og var sett í járn. Mér fannst þetta eiginlega verst, hvernig hún braust um.“

Fanney lauk erindi sínu á því að ítreka að verulega taki á að svipta nákominn ættingja sjálfræði. „Ég held að maður hafi aldrei gert sér grein fyrir því hvað það er alvarlegt mál að svipta annan mann sjálfræði. Ágústa hefur þó aldrei látið það bitna á mér,“ sagði Fanney

Sjálfræðissvipting getur verið ótímabundin

Frelsisskerðing getur varað í 48 klukkustundir og er einstaklingur þá vistaður á spítala í framhaldi af mati læknis. Nauðungarvistun á spítala sem samþykkt er af innanríkisráðuneytinu getur varað töluvert lengur eða allt að 21 dag. Þetta kom fram í viðtali Morgunblaðsins við Önnu Gunnhildi Ólafsdóttur, framkvæmdastjóra Geðhjálpar, í dag.

Sjálfræðissvipting er það þriðja í þessari upptalningu og getur hún verið í sex mánuði eða lengur og jafnvel ótímabundin. Ótímabundin sjálfræðissvipting er ekki algeng þegar geðsjúkir eiga í hlut en komi til hennar eru það dómstólar sem kveða úr um hana.

Frétt Morgunblaðsins: Mannvirðing sé höfð að leiðarljósi

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert