Heildarfjöldi starfsmanna ríkisins er 21.102 samkvæmt svari Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra, við fyrirspurn frá Guðlaugi Þór Þórðarsyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins.
„Af þeim eru 1.149 skipaðir fyrir 1. júlí 1996. Eftir þann tíma er enginn lengur skipaður ótímabundið heldur aðeins til fimm ára, að undanskildum hæstaréttar- og héraðsdómurum, og 37 ráðnir til starfa ótímabundið án gagnkvæms uppsagnarfrests,“ segir ennfremur í svarinu.
Fram kemur í svarinu að flestir þeirra sem skipaðir voru fyrir 1. júlí 1996 starfi hjá Háskóla Íslands eða samtals 181 og næstflestir starfa hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu eða samtals 109. Þá kemur Þjóðkirkjan með 58 og embætti Ríkislögreglustjóra með 36 starfsmenn sem skipaðir voru fyrir þann tíma.