Ljósmynd af lögregluþjóni og kettlingi í lögreglubíl hefur vakið nokkra athygli á samfélagsmiðlinum Instagram í dag. Myndin var birt á síðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu en lögreglan hefur verið ötul við að leyfa Facebook-, Instagram- og Twitternotendum að fylgjast með daglegu lífi lögregluþjónsins.
Flosi Brynjólfsson, lögregluþjónn hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, er einn af þeim sem sjá um samskiptamiðlana. „Við viljum leyfa fólki að fylgjast með,“ segir hann í samtali við mbl.is. Kettlingurinn á myndinni heitir Mósi og er í eigu eins lögregluþjónsins.
„Mósi var á leið í pössun og fékk að vera á vaktinni í smá stund,“ segir Flosi. „Mosi mun alast upp sem lögregluköttur.“ Aðspurður segir Flosi lögreglan eigi oft í samskiptum við dýr, ekki síður en mannfólkið. Týndir og slasaðir hundar, kettir og fuglar þurfi stundum á aðstoð að halda líkt og mennirnir.
Flosi segir að samskiptamiðlarnir séu aðallega notaðir til að gefa innsýn inn í starfið. „Við viljum sýna að við erum bara mannleg, ekki bara alvarleg.“