Héraðsdómur Vestfjarða hefur dæmt karlmann á níræðisaldri í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa ítrekað sært blygðunarsemi mæðgina, nágranna sinna, með því að standa nakinn fyrir innan glugga á heimili sínu og strjúka á sér getnaðarliminn. Vakti hann athygli þeirra á sér með því að banka á rúðu og kveikja ljós.
Lögreglu bárust fyrst upplýsingar um málið fimmtudaginn 4. ágúst 2011. Nágrannakonan ákvað að leggja fram kæru á hendur manninum vegna kynferðislegrar áreitni. Í kærunni var því lýst að maðurinn hefði beint kynferðislegri hegðun að konunni í mörg ár og hún hefði ákveðið að kæra málið til lögreglu nú þegar sonur hennar væri einnig farinn að horfa upp á þetta.
Maðurinn neitaði sök en dómurinn taldi sannað að hann hefði ítrekað sýnt af sér þá háttsemi að bera sig í glugganum og snerta á sér kynfærin og vakið athygli nágranna á því.
Auk skilorðsbundinnar refsingar var manninum gert að greiða 450 þúsund krónur í miskabætur og 1.213 þúsund krónur í sakarkostnað.