Í tilkynningu frá Vegagerðinni segir að víða sé vindur orðinn mjög hægur og dregið hefur úr úrkomu. Því má búast við að varasöm ísing myndist á vegum víða um land, einkum vestan- og norðantil en einnig á Austurlandi í nótt.
Ísing hefur myndast á köflum á Suðurnesjum. Annars hafa vegir á Suður- og Suðvesturlandi verið að mestu auðir en þó er hálka í Grafningi og hálkublettir á fáeinum vegum í uppsveitum Suðurlands.
Við Faxaflóa eru vegir nánast auðir með ströndinni en sumstaðar er hálka í innsveitum. Hálka eða hálkublettir eru á fjallvegum á Vesturlandi, á norðanverðu Snæfellsnesi og í Dölum. Eins er hálka eða snjóþekja á velflestum vegum á Vestfjörðum. Þæfingsfærð er á Kleifaheiði.
Á Norðurlandi er víða nokkur hálka og sumstaðar snjóþekja. Flughált er á Dettifossvegi.
Á Austurlandi eru vegir mikið til auðir. Þó er hálka á Vopnafjarðarheiði, Háreksstaðaleið og Fjarðarheiði en hálkublettir á Oddsskarði og Vatnsskarði eystra. Greiðfært er suður um með ströndinni.