„Ég heyrði einu sinni lag af plötunni okkar í matvöruverslun í smábæ í Bandaríkjunum. Það var ekki einu sinni eitt af frægu lögunum okkar eins og Little talks heldur lagið From finner held ég. Það fannst mér mjög kúl, sérstaklega þegar starfsmaðurinn á kassanum spurði síðan: Ert þetta þú?“ segir Nanna Bryndís Hilmarsdóttir, söngkona Of monsters and men í viðtali við The Hollywood Reporter.
Hún er spurð ítarlega út í upphaf hljómsveitarinnar og velgengninnar. „Þetta gerðist ofsalega hratt hjá okkur. Þegar við gáfum út plötuna voru margir úti í heimi að hlusta á okkur. Vegna internetsins gat fólk hlustað á tónlistina okkar og séð okkur spila án þess að þurfa að ferðast til Íslands. Það á því stóran þátt í því að við komumst í tónleikaferðalag og fengum plötusamning.“
Tónlist hljómsveitarinnar byggir mikið á því að hrífa fólk með. Nanna segir það vera markvisst gert. „Okkar tegund af tónlist byggir á því að fólk syngi með, klappi og stappi. Það er frábært að fá þannig viðbrögð frá áhorfendum. Við fundum fyrir því að á hlýjum stöðum er fólk alltaf til í að missa sig í gleðinni en á kaldari stöðum, eins og staðurinn sem við komum frá, heldur fólk meira aftur af sér. Þar hugsar fólk: Bíddu nú aðeins, við þekkjumst ekkert það vel. Ég ætla ekki að dansa.“
„Nanna rifjar síðan upp fyrstu tónleika sveitarinnar á erlendri grundu, sem fóru fram í hjólreiðaverslun í Austin, Texas. Sveitin hafði þá ekki enn gefið út plötu. „Það sungu samt allir með,“ rifjar Nanna upp. „Ég held að það verði allt öðruvísi með næstu plötuna okkar. Það hefur svo margt gerst á undanförnum árum. Við erum á allt öðrum stað.“