Nota ljósastaura eins og Facebook

Á námskeiði Torfa er m.a. fjallað um tilfinningar og gáfnafar …
Á námskeiði Torfa er m.a. fjallað um tilfinningar og gáfnafar hunda. Rósa Braga

Hund­ar nota ljósastaura eins og menn­irn­ir nota sam­skipt­asíður eins og face­book og til eru dæmi um að hund­ar líti á sig sem höfuð fjöl­skyld­unn­ar og hagi sér sam­kvæmt því. Skynj­un þeirra er gjör­ólík okk­ar og lítið gagn er að því að skamma hund sem hef­ur brotið gegn heim­il­is­regl­um, nema hann sé staðinn að verki. Þetta seg­ir dr. Torfi Jó­hann­es­son, sem er sér­fræðing­ur í at­ferli og vel­ferð dýra.

Torfi held­ur nám­skeið á veg­um Náms­flokka Hafn­ar­fjarðar þar sem m.a. er fjallað um til­finn­ing­ar og gáfnafar hunda. Hvað sé líkt og ólíkt með skynj­un þeirra og manna og fjallað er um ýms­ar kenn­ing­ar um upp­eldi hunda.

„Hund­ar eru rán­dýr og hrææt­ur sem hafa verið aðlagaðir að öðru hlut­verki. Hund­ar finna mörg hundruð sinn­um meiri lykt en við, það má segja að þeir lifi í lykt­ar­heimi, í allt ann­arri ver­öld en við. Þar sem við sjá­um ljósastaur, sjá þeir gesta­bók eða face­book-síðu, þeir „læka“ staur­ana með því að pissa á þá,“ seg­ir Torfi. 

„Á móti sjá þeir tals­vert verr en við. Við prímat­ar höf­um svo­kallaða þrílita sjón, en hund­ar og flest spen­dýr eru með tví­lita. Þeir sjá kannski ekki svart­hvítt en þeir skynja liti á ann­an hátt. Það er ekk­ert ósvipað því að þeir séu með rauðgræna lit­blindu,“ seg­ir Torfi og seg­ir að sýnt hafi verið fram á þetta með at­ferl­is­at­hug­un­um og út frá lífeðlis­fræði.

Heyrn hunda er líka nokkuð ólík manns­heyrn­inni. Þeir heyra hærri tíðni en fólk, að sögn Torfa sem seg­ir að það skipti máli að átta sig á því hvernig hund­ar skynja heim­inn, vilji fólk vilji skilja hunda bet­ur.

Gleði hunds þarf ekki að vera eins og gleði manns

En hvað með til­finn­ing­ar hunda? „Ég hef velt fyr­ir mér hvort hund­ar og reynd­ar önn­ur dýr geti upp­lifað til­finn­ing­ar eins og gleði, sorg, leiða, reiði, hræðslu eða sekt­ar­kennd. Sum­ar til­finn­ing­ar eins og reiði eða hræðsla eru grunn­liggj­andi og það eru til­tek­in horm­ón sem koma fram við þær. Aðrar eru menn­ing­ar­bundn­ar, eins og t.d. sekt­ar­kennd og af­brýðis­semi og þær er erfitt að yf­ir­færa á dýr. Ef við sjá­um kát­an hund leika sér, þá get­um við vel dregið þá álykt­un að hann sé glaður. En það þarf ekki að vera eins og sú gleði sem við finn­um fyr­ir.“

Fá hund­ar semsagt ekki sekt­ar­kennd þegar þeir gera eitt­hvað af sér? „Nei, það held ég ekki. Ég held að þeir séu al­gjör­lega laus­ir við hana, en þeir geta lært hvenær þeir hafa fram­kvæmt eitt­hvað sem við bregðumst illa við.“

Refs­ing­ar ekki góð leið til að ala upp hunda

Á nám­skeiðinu fjall­ar Torfi einnig um at­ferl­is­vanda­mál hunda. „Marg­ir hund­ar eiga erfitt með að vera ein­ir heima á dag­inn og skemma þá hluti. Það þarf að gæta að því hvernig tekið er á slíku,“seg­ir Torfi og tek­ur dæmi um hund sem hef­ur skemmt hús­muni og ligg­ur síðan und­ir sófa þegar eig­and­inn kem­ur heim. „Ef hann fer að skamma hund­inn, þá túlk­ar hund­ur­inn það þannig að það sé slæmt að liggja und­ir sóf­an­um og að það megi hann alls ekki gera aft­ur. Hann gæti þá orðið ruglaður í rím­inu og stressaður, því hingað til hef­ur hann mátt liggja þar.“

Torfi seg­ir að refs­ing­ar séu al­mennt ekki góð leið til að ala upp hunda. Erfitt sé að fá hund­inn til að skilja að hverju refs­ing­in bein­ist, helst þurfi að grípa hann í at­hæf­inu til að hann skilji það.

Hund­um get­ur liðið vel hvar sem er

Stund­um heyr­ist sagt að illa sé farið með hunda að láta þá búa í þétt­býli, að hund­um líði best í sveit. Torfi tek­ur ekki und­ir þetta. „Sum­ar hunda­teg­und­ir hafa verið kyn­bætt­ar í hundruð ára til að gera eitt­hvað allt annað en að vera inni í litl­um íbúðum meiri­hluta dags­ins. En hund­ar eru mjög mis­mun­andi og hafa mis­mun­andi þarf­ir. Hund­ur sem býr í lít­illi íbúð í miðborg Reykja­vík­ur get­ur átt stór­kost­legt líf ef t.d. eig­and­inn er for­fallið úti­vistar­frík og hund­ur sem býr í sveit get­ur haft það slæmt. Sum­um hund­um lík­ar vel að vera í bæj­um, öðrum ekki. Það sem skipt­ir máli er að hund­ur­inn fái mat, umönn­un og hreyf­ingu.“

Hund­ur­inn sem höfuð fjöl­skyld­unn­ar

Að sögn Torfa er eitt af því sem ger­ir hund­inn að svo ákjós­an­legu gælu­dýri að hann er hóp­dýr. „Hund­ar eru ná­skyld­ir úlf­um og eru hóp­dýr. Þetta er mjög mikið fé­lags­dýr sem hef­ur aðlag­ast okk­ur og virðist eiga mjög auðvelt með að út­víkka hug­mynd sína um hóp­inn. Flest önn­ur dýr myndu ekki gera það, held­ur líta þau á mann­inn sem allt aðra dýra­teg­und. Sum vanda­mál verða vegna þess að hund­ur­inn skil­grein­ir sig sem for­ingja hóps­ins, sem höfuð fjöl­skyld­unn­ar og fær að kom­ast upp með það. Mjög und­ir­gef­in fjöl­skylda og ríkj­andi hund­ur er ekki góð blanda.“

Eru hunda­eig­end­ur of gjarn­ir á að eigna hund­un­um mann­lega eig­in­leika? „Ég held að það sé afar eðli­legt upp að ákveðnu marki, en sam­lík­ing­in á sér sín tak­mörk og stund­um er gott að minna okk­ur á að við erum sín hvor teg­und­in.“

Dr. Torfi Jóhannesson, sérfræðingur í atferli og velferð dýra.
Dr. Torfi Jó­hann­es­son, sér­fræðing­ur í at­ferli og vel­ferð dýra.
Eitt af því sem gerir hundinn að svo ákjósanlegu gæludýri …
Eitt af því sem ger­ir hund­inn að svo ákjós­an­legu gælu­dýri að hann er hóp­dýr, AFP
„Hundar eru rándýr og hræætur sem hafa verið aðlagaðir að …
„Hund­ar eru rán­dýr og hrææt­ur sem hafa verið aðlagaðir að öðru hlut­verki,“ seg­ir Torfi. mbl.is/​RAX
mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert