Fossinn Dynkur á förum?

Fossinn Dynkur
Fossinn Dynkur mbl.is/Rax

„Það vita í rauninni allt of fáir af þessum fossi,“ segir Ólafur Haraldsson um fossinn Dynk í Þjórsá, en Ólafur hefur meðal annars tekið 360 gráða ljósmyndir af fossinum og umhverfi hans.

„Fólk veit ekki hvað liggur undir þegar það er talað um að taka vatnið af þessu svæði. Þá verða öll þessi risastóru gil bara þurr.“ Hann segir vinnu hafna við nýtt uppistöðulón ofan við fossinn til að sjá Norðlingaölduveitu fyrir vatni. „Þetta svæði fer ekki undir vatn eins og sumir halda, heldur á einfaldlega að taka það af.“

Ólafur segir að hugmyndir hafi verið uppi um að taka vatnið af fossinum yfir nóttina, en leyfa því að renna um svæðið á daginn, en líst illa á þá lausn. „Svo hugsar maður um hvers vegna sé verið að gera þetta? Af hverju þurfum við meira rafmagn? Landsvirkjun þarf bara að hafa einhver verkefni,“ segir Ólafur.

Á síðustu tveimur árum segir hann að árfarvegum hafi verið breytt til að undirbúa að taka vatn af fossinum. „Allavega 30% af vatninu sem rann um fossinn er þegar farið. Þessi foss er alls ekkert verri en til dæmis Gullfoss. Hann er svipað stór, jafnvel stærri, en mikið verra aðgengi að honum. Það er mikil upplifun fyrir fólk að sjá fossinn,“ segir Ólafur, og vonar að það sé ekki of seint að koma í veg fyrir að fossinn verði þurrkaður upp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert