Sálfræðimeðferð við ADHD árangursrík

„Í þeim fáu rannsóknum sem gerðar hafa verið á meðferð fullorðinna einstaklinga með ADHD virðist sálfræðimeðferð vera árangursrík,“ segir Brynjar Emilsson sálfræðingur en hann ræddi meðferð við ADHD hjá fullorðnum á Læknadögum í Hörpu ásamt Þórgunni Ársælsdóttur geðlækni. Þau eru bæði hluti af ADHD-teymi Landspítalans og fjölluðu þau annars vegar um sálfræðimeðferð og hins vegar um lyfjameðferð.

Sálfræðimeðferð sýnir langtímaárangur

„Fyrsta meðferð við ADHD hjá fullorðnum er alltaf lyfjameðferð. Það er aðallega vegna þess að það vantar rannsóknir á sálfræðimeðferðinni. Í þeim fáu rannsóknum sem gerðar hafa verið virðist sálfræðimeðferð vera mjög árangursrík, bæði við ADHD og fylgiröskunum á borð við kvíða og þunglyndi. Kosturinn við sálfræðimeðferð, í þeim tilvikum þar sem hún hefur verið rannsökuð, er að hún sýnir langtímaárangur,“ segir Brynjar.

„Þó að sálfræðimeðferðinni sé hætt, má enn sjá árangur hjá einstaklingunum. Rannsóknir hafa að betri árangur næst hjá þeim sem eru í lyfjameðferð og gangast síðan einnig undir sálfræðimeðferð.“

„Hingað til hefur engin sálfræðiþjónusta verið formlega í boði fyrir þetta fólk. Sú þjónusta sem hefur verið í boði hefur verið hjá geðlæknum á stofum og hefur það nær eingöngu verið lyfjameðferð. ADHD-samtökin hafa veitt ákveðna þjónustu en að öðru leyti hefur ekki verið í boði sálfræðimeðferð fyrir þetta fólk,“ segir Brynjar. „Þetta er eitthvað sem þarf að skoða. Ef ódýrara úrræði og úrræði sem veitir langtímaárangur, sálfræðimeðferð, er eðlilegt að skoða það en hingað til hefur það ekki verið í boði.“

Lyfjakostnaður vegna ADHD gífurlegur

Brynjar segir að ADHD-teymi Landspítalans muni hefja sálfræðimeðferð fyrir fullorðna einstaklinga með ADHD í vor. Teymið mun þá veita þeim sem hefur verið vísað til þeirra þjónustu. Langflestum er vísað til teymisins af heilsugæslulæknum, en einnig af læknum á spítalanum og sérfræðilæknum. „Lyfjakostnaður er gífurlegur og sálfræðimeðferðin er ódýrari. Í flestöllum rannsóknum í þessum fræðum hefur sálfræðimeðferð og lyfjameðferð samhliða henni gefið langbesta niðurstöðu,“ segir Brynjar en tekur fram að það sé þó ekki í öllum tilvikum. Stundum virki lyfjameðferð til að mynda betur.

Brynjar ræddi einnig hvernig huglæg atferlismeðferð hefði verið löguð að einstaklingum með ADHD. „Í stuttu máli þarf að taka tillit til þess að fólkið hefur litla einbeitingu og þolinmæði, maður þarf að hafa meiri aksjón í meðferðinni. Maður þarf að stíla inn á hluti sem tengjast ADHD, skipulagningu, minnisæfingum og hvatvíslegri hegðun,“ segir Brynjar.

Ekki hægt að mæla með markþjálfun eða breyttu mataræði

„Í verklagsreglum vegna meðferðar fullorðinna einstaklinga með ADHD hefur eingöngu verið mælt með lyfjameðferð og sálfræði. Mikil umræða hefur verið um næringu og hvernig mataræði getur haft áhrif. Þessu tvennu hefur helst verið mælt með en ekki eru nægileg vísindaleg rök fyrir annars konar meðferðum. Að minnsta kosti ekki ennþá,“ segir Brynjar.

„Verið er að skoða ýmsa þætti, til að mynda varðandi sykur, markþjálfara og annað en ekkert af þessu hefur raunverulega verið rannsakað svo hægt sé að mæla með því.“

Greining ADHD hjá fullorðnum vandasöm

ADHD hjá fullorðnum einstaklingum hefur nokkra sérstöðu af ýmsum ástæðum. „Þetta er eina geðgreiningin sem ég veit um sem fólk beinlínis óskar eftir að fá,“ segir Þórgunnur Ársælsdóttir geðlæknir en hún fjallaði um lyfjameðferð við ADHD hjá fullorðnum á málþinginu í gær.
 
„Greining á ADHD hjá fullorðnum er mjög vandasöm en oft er um fylgigreiningar að ræða, líkt og þunglyndi og kvíða. Einkenni athyglisbrests eru sameinleg með mörgum öðrum röskunum. ADHD er taugaþroskaröskun sem kemur fram á barnsaldri. Nauðsynlegt er að hafa ítarlega skoðunarsögu og greiningarferli til að greina sjúkdóminn,“ segir Þórgunnur og bendir á að ekki séu til líffræðilegir mælikvarðar sem skera úr um hvort einstaklingurinn er með sjúkdóminn. Þannig er til að mynda ekki hægt að mæla hvort sjúkdómurinn er til staðar eða til dæmis með því að taka blóðprufu.

Lyfin stundum misnotuð

„Vitað er að sum lyf sem notuð eru við ADHD eru misnotuð af fólki með fíknisjúkdóma,“ segir Þórgunnur. Tvö lyf eru notuð við vinnu ADHD-teymis Landspítalans, lyfin Concerta, sem er langvirkt form af methylphenidate, og atomoxetin, sem hefur sérlyfjaheitið Strattera. Þórgunnur segir að fyrra lyfið sé hannað þannig að erfitt sér að ná lyfi úr töflunni til að misnota. Engin hætta er aftur á móti á því að hitt lyfið sé misnotað.

„Auðvitað virka ekki öll lyf. Lyfjameðferð er alltaf fyrsta meðferð við ADHD hjá fullorðnum og við notum eingöngu atomoxetin þegar fólk er með fíknivanda,“ segir Þórgunnur. „Það eru ekki allir sem þurfa lyfjameðferð. Það verður að meta það eftir því hversu hamlandi einkennin eru. Fyrir suma er nóg að vita að þeir hafi þennan vanda og fái stuðning og fræðslu til að höndla einkennin.“

Tíðni greininga hefur farið vaxandi

„Hugræn atferlismeðferð í hóp fyrir fullorðna með ADHD hefur komið vel út í rannsóknum, en í flestum þeirra eru einstaklingarnir jafnframt á lyfjameðferð.“

„Tíðni greininga hefur farið vaxandi hér á landi og annars staðar,“ segir Þórgunnur. Hún segir að lyfjanotkun sé mun meiri hér á landi en annars staðar í Evrópu. Ekki sé til ein skýring á því, heldur sé það samspil marga þátta.

Þórgunnur nefndi í erindi sínu að fullorðnir einstaklingar með ADHD séu oft hamlaðir af sínum sjúkdómi og algengum fylgiröskunum og mikilvægt sé að þeir fái góða aðstoð. Sérfræðingar telji að sjúkdómurinn sé ofgreindur hér á landi en einnig vangreindur, en þá er átt við að einstaklingar komi ekki í greiningu eða séu ekki rétt greindir. „Greiningin er flókin og vandasöm og fer best á því að hún sé gerð í þverfaglegu teymi, líkt og í ADHD-teymi Landspítalans.“

mbl.is/Kristinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka