Sr. Sigurvin Jónsson, prestur í Laugarneskirkju, fjallaði um áhrif bókstafstrúar á lagasetningar í Nígeríu og Úganda þar sem hinsegin fólk er ofsótt og beitt ofbeldi sem kynnt er undir af bandarískum trúboðum.
Í prédikuninni er sagt frá heimildamynd, God Loves Uganda, sem hefur unnið til fjölda verðalauna á kvikmyndahátíðum haustsins og sýnir með beinum hætti hvernig að bandarískir evangelistar kynda undir ofbeldi í garð hinsegin fólks.
Í messukaffinu sagði kona frá Úganda, Namayanja Noeline, frá því að skólar í Úganda neituðu sumir að taka við börnum samkynhneigðra foreldra og að ofsóknir á hendur þeim færu stigvaxandi. Það er ekki fjölmiðlafrelsi í Úganda og því fær almenningur nær eingöngu að heyra áróður gegn hinsegin fólki. Noeline býr hér á landi og stundar nám en mun flytja aftur heim í ágúst.
„Réttindabarátta samkynhneigðra rekur upphaf sitt til Stone Wall óeirðanna í San-Francisco 28. júní 1969 og er ávöxtur þeirrar miklu mannréttindavakningar sem varð í kjölfar réttindabaráttu svartra á 6. og 7. áratugnum og mótmælum gegn stríðsrekstri bandaríkjanna í Víetnam stríðinu. Réttindabaráttan var studd af frjálslyndum kirkjum og trúarleiðtogar á borð við Dr. Martin Luther King voru í fararbroddi hreyfingarinnar sem breiddist út um allan heim. Ávöxtur hennar eru meðal annars Samtökin ‘78 sem hefur náð ótrúlegum árangri hérlendis við að minnka fordóma og jafna réttindastöðu hinsegin fólks á Íslandi. Martin Luther King tjáði sig hvergi opinberlega um samkynhneigð en ekkja hans, Coretta Scott King, var ötull talsmaður hinsegin fólks eftir andlát hans og einn af nánustu ráðgjöfum King var opinberlega samkynhneigður (Bayard Rustin), sem var óalgengt á þeim tíma.
Bandaríkin hafa verið leiðandi í réttindabaráttu hinsegin fólks frá Stone Wall óeirðunum en vaxandi bókstafshyggja og aukin pólitísk umsvif íhaldssamra kirkna hefur leitt af sér bakslag í þeirri baráttu. Andstæðingar réttinda samkynhneigðra í Bandaríkjunum eru flestir tengdir kristnum íhaldsöflum og réttindi samkynhneigðra eru orðin eitt mesta hitamál bandarískra stjórnmála, á sama hátt og þrælahald og kynþáttahyggja var á árum áður. Trúboði evangelista um allan heim, eins og við höfum nýlega orðið vitni að frá Franklin Graham, fylgir íhaldssemi í siðferðisefnum sem fordæmir kynlíf fyrir hjónaband, hjónaskilnaði og samkynhneigð. Bandarískir evangelistar eru í dag með beinum hætti að hafa áhrif á ákvarðanir stjórnvalda um réttindi hinsegin fólks, í Bandaríkjunum og á þeim svæðum þar sem Bandaríkjamenn hafa ítök, þar með talið Afríku. Fordæming samkynhneigðar er réttlætt í Jesú nafni og því skiptir afstaða Jesú til samkynhneigðar máli,“ segir í predikun Sigurvins.
Sótt um leyfi til að sýna God Loves Uganda
„Nýleg heimildamynd God Loves Uganda eða Guð elskar Úganda, greinir með sláandi hætti frá því hvernig amerískir evangelistar hafa með beinum hætti ýtt undir fordóma í garð samkynhneigðra í landinu. Myndin, sem hefur sópað að sér verðlaunum á kvikmyndahátíðum haustins, veitir innsýn í hugarheim bókstafhyggjumanna sem sjá Úganda sem fremstu víglínu í baráttu Guðs gegn samkynhneigðum og afleiðingar þess. Baráttu sem óðum er að þeirra mati að tapast í bandaríkjunum þar sem réttindabarátta hinsegin fólks veitir þeim öflugt viðnám. Í myndinni eru sýnd myndskot frá trúarsamkomum þar sem ýtt er undir hatur gegn hinsegin fólki en jafnframt tekin viðtöl við baráttumann fyrir réttindum samkynhneigðra, sem var myrtur skömmu síðar, og við biskup Christopher Senyonjo, sem var sviptur hempu og eftirlaunum fyrir að berjast gegn fordómum í garð hinsegin fólks.
Laugarneskirkja hefur sótt um leyfi til að sýna myndina í safnaðarheimili kirkjunnar og vonandi verður hún tekin til almennrar sýningar í kvikmyndahúsum á árinu,“ segir enn fremur í predikuninni en hana má lesa í heild hér