Eins og Moldavía í mannréttindum

Kaupþing
Kaupþing mbl.is/Ómar

Munnlegur flutningur um frávísunarkröfu ákæru á hendur fyrrverandi stjórnenda Kaupþings stendur yfir í Héraðsdómi Reykjavíkur. Þeir verjendur sem hafa flutt ræður sínar telja að það standi ekki steinn yfir steini í ákæru og málflutningi ákæruvalsins.

Krafa Jóhannesar Sigurðssonar, verjanda Bjarka Diego, er sett fram á grundvelli 159. gr. laga um sakamála og byggist á hvernig rannsakendur brutu reglur um símhlustanir og hafi gróflega brotið gegn réttindum ákærða sem varin eru af 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu (MSE) og 70. gr. stjórnarskrárinnar.

„Eftir hrun eins og það sem varð kemur upp krafa um að bankamennirnir sem fólk taldi bera ábyrgð á því væru sóttir til saka og þeim komið á bak við lás og slá,“ segir Jóhannes Sigurðsson. „Fjölmiðlar gengu af göflunum, og æðstu ráðamenn þjóðarinnar misstu stjórn á þessum málum og hvernig þeir brugðust við.

Fyrrverandi forsætisráðherra lýsti til að mynda fögnuði að sakborningar í þessu máli voru settir í gæsluvarðhald, og fyrrverandi fjármálaráðherra sagði í útvarpsþætti að bankamenn yrðu hundeltir. Rannsókn málsins fór fram í þannig andrúmslofti, sem verjandinn telur að einhverju leyti enn uppi, og að rannsakendur og dómarar hafi fyrirframmótaðar skoðanir á því að þessir menn hafi framið glæp og að þeim beri að refsa.“

Þannig komst Jóhannes Sigurðsson að orði. Rétturinn til að eiga óhindruð trúnaðarsamtöl er heilagur, samkvæmt áðurnefndum ákvæðum MSE og stjórnarskrárinnar, samkvæmt skrifum Davíðs Þórs Björgvinssonar, prófessors við Kaupmannahafnarháskóla. „Þó getur sú aðstaða komið upp að þau séu hlustuð.“

Kerfið við símhlustunina á að mati Jóhannesar að vera svona: „Í ríkjum, sem vilja láta taka sig alvarlega í mannréttindum, þá á utanaðkomandi aðili, óháður rannsakendum, að hlusta á slík samtöl. Aðeins ef hann gefur grænt ljós á að hlusta á slík samtöl er heimilt að hlusta á þau. Ef símtalið varðar eitthvað sem getur flokkast sem trúnaðarsamtal verjanda og skjólstæðings, þá má ákæruvaldið ekki koma nálægt slíkum samtölum.“

Hann segir leiðinlegt að sjá að við stöndum okkur ekki betur í mannréttindamálum en í Moldavíu, eins og hann víkur að.

„Í dómi MDE,  þar sem mannréttindalögfræðingar vildu láta hnekkja lögum sem giltu almennt í Moldavíu. Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) er sleginn yfir því að það séu ekki neinar reglur í Moldavíu sem tryggi það að ekki séu hlustuð símtöl verjenda og sakborninga. Sakamálalögin íslensku segja að vísu, segir hann, að þannig samtölum eigi að eyða þegar í stað, en þau hafa verið hlustuð, geymd og lögð fram í dómsmálum. Þessi vernd, sem á að tryggja samkvæmt MSE og íslenskum lögum, hún hefur ekki verið tryggð.“

„Það er nauðsynlegt að dómstóllinn sendi skýr skilaboð að hér sé réttarríki og að menn fari að lögum við rannsókn sakamála,“ segir Jóhannes áður en hann lýkur máli sínu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert