Hægt að afnema verðtrygginguna

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Mögulegt er að afnema verðtrygginguna á kjörtímabilinu. Þetta sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra á Alþingi í dag í svari við fyrirspurn frá Katrínu Jakobsdóttur, formanni Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs.

Sagði ráðherrann að heilmikil tíðindi fælust í niðurstöðu sérfræðihóps um afnám verðtryggingarinnar. Bæði meirihluti og minnihluti hópsins lýstu því hversu mikla og alvarlega galla verðtryggingin hefði í för með sér og hversu mikilvægt væri að afnema hana. Þeir væru að vísu ósammála um hversu hratt væri rétt að gera það, en eftir sem áður lægi fyrir að samstaða væri um það á meðal þeirra sérfræðinga sem komið hefðu að málinu að rétt væri að vinna að afnámi verðtryggingarinnar. Sigmundur sagði ennfremur að leiðarvísar, og raunar tveir slíkir, fylgdu um það hvernig best væri að standa að afnámi hennar.

„Þetta eru auðvitað mikil tíðindi eftir áratugadeilur og umræður um verðtrygginguna að við skulum vera komin á þennan stað. Og nú bíður okkar hér í þinginu og í ríkisstjórn að vinna úr þessum miklu gögnum, þessum miklu rannsóknum sem sérfræðingarnir lögðu í og tillögum sem frá þeim bárust, til þess að sem best megi standa að afnámi verðtryggingar og sem hraðast,“ sagði hann ennfremur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert