Næg tilefni til að slíta samstarfinu

Ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs.
Ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs. mbl.is/Eggert

Sundrung var viðvarandi vandi á stjórnarheimilinu í tíð síðustu ríkisstjórnar. Þetta segir Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, meðal annars í grein sem hún ritar í fyrsta tölublað nýs málgagns Samfylkingarfélagsins í Reykjavík. Í raun hafi þrír flokkar verið í stjórninni; Samfylkingin, Vinstrihreyfingin - grænt framboð Steingríms J. Sigfússonar og Vinstrihreyfingin - grænt framboð Ögmundar Jónassonar.

„Hluti þingmanna VG var andsnúinn efnahagsstefnu stjórnarinnar og þrír þeirra studdu ekki fjárlög ársins 2011. Ríkisstjórnin hafði öll einkenni minnihlutastjórnar löngu áður en hún varð formlega minnihlutastjórn síðla árs 2012. Samfylkingin var lengst af samstiga, en síðasta árið brást samstaðan nokkuð, ekki síst vegna yfirvofandi formannskjörs en að hluta vegna almennrar þreytu með stjórnarsamstarfið,“ segir Sigríður Ingibjörg.

Hún spyr síðan að því hvort Samfylkingin og VG hefðu átt að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu og boða til kosninga áður en kjörtímabilið var á enda og svarar eigin spurningu: „Hugsanlega. Næg voru tilefnin í það minnsta. Sjálf taldi ég tvö skýr tilefni til að „skila umboðinu“ til Bessastaða, eftir Icesave-kosningarnar fyrri og síðari.“ Erfiðleika í stjórnarsamstarfinu við VG nefnir hún sem eina af mörgum ástæðum þess að Samfylkingin fór illa út úr síðustu kosningum.

Ómarkviss stefna og skortur á trausti

Erfitt hafi verið að taka við stjórn landsins eftir að efnahagserfiðleikarnir skullu á. Samstarfið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (AGS) hafi ekki verið ávísun á vinsældir. Icesave-málið hafi sett ríkisstjórnina í þá stöðu að vera sífellt sökuð um að ganga erinda erlendra aðila á kostnað íslensks almennings. Þá hefði Samfylkingin ekki gert nóg til þess að bregðast við skuldavanda heimilanna og fyrir vikið komið mörgum fyrir sjónir sem varðhundar kerfisins. Flokkurinn hafi verið of varkár.

Þá hafi Samfylkingin ekki notið nægjanlegs trausts þegar hún hóf stjórnarsamstarfið við VG árið 2009. Henni hafi ekki verið refsað fyrir samstarfið við Sjálfstæðisflokkinn en róðurinn hafi farið að þyngjast eftir útkomu rannsóknarskýrslu Alþingis líkt og sést hafi í sveitarstjórnarkosningunum 2010. Sömuleiðis hafi skort markvissa áætlun til þess að koma lykilmálum í áfram, fylgi hafi tapast á meðal kvenna og kosningabaráttan fyrir síðustu kosningar verið ómarkviss.

„Það er auðvelt að vera vitur eftir á en lítils virði ef sú vitneskja og ályktanir af henni eru ekki nýttar til að gera betur. Það er mikilvægt að við fáum góða kosningu í sveitarstjórnakosningunum í vor og náum þannig viðspyrnu. Hægriöflin sem nú hafa tekið við stjórn landsins verða ekki sigruð nema kjósendur treysti okkur jafnaðarmönnum, skilji stefnu okkar og viti að við vinnum í samræmi við hana,“ segir Sigríður Ingibjörg ennfremur í lokin.

Greinina í heild má nálgast hér.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert