Raungengi krónu hefur styrkst töluvert og er á mælikvarða hlutfallslegs verðlags nú svipað og í september 2008. Vísitala raungengis var 81,2 stig í desember. Til samanburðar var meðaltalið 1990 til 2013 91,6 stig, að bóluárunum meðtöldum, þegar raungengið náði sögulegum hæðum.
Raungengi er annað en skráð nafngengi. Styrkist raungengið eykst kaupmáttur í erlendum vörum. Raungengið hrundi eftir efnahagshrunið en hefur síðan styrkst.
Jón Bjarki Bentsson, sérfræðingur hjá Greiningu Íslandsbanka, segir í Morgunblaðinu í dag, að í sögulegu ljósi fari halli að myndast af viðskiptum við útlönd ef áðurnefnd vísitala fer mikið yfir 90 stig. Vegna mikillar gjaldeyrisþarfar þjóðarbúsins, og fyrir afgang af viðskiptum við útlönd, sé ekki æskilegt að raungengi styrkist mikið meira.