„Það er fáránlegt að ætlast til þess af þeim stjórnmálaflokkum sem nú hafa myndað stjórn og hafa alls ekki á stefnuskrá sinni að Ísland gangi í ESB að þeir beiti sér fyrir því að umsóknin sem fráfarandi stjórn sendi til Brussel öðlist framhaldslíf.“
Þetta skrifar Ragnar Arnalds, fyrrverandi fjármálaráðherra, á vefinn Vinstrivaktin gegn ESB, í dag. Hitt sé annað mál að stjórnarflokkarnir, Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn, hafi heitið því að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu ef til þess kæmi að viðræðurnar yrðu teknar upp aftur. Það standi hins vegar ekki til í bráð. Samfylkingin hafi fengið fjögur ár til þess að sýna fram á að eitthvað annað væri í boði af hálfu Evrópusambandsins en lög þess og reglur en án árangurs.
„Dapurleg reynsla VG á liðnu kjörtímabili verður öðrum flokkum lærdómsrík í framtíðinni og kennir þeim að enginn stjórnmálaflokkur, sem er andvígur ESB-aðild, má láta hafa sig til að sækja um inngöngu með þeirri afsökun að flokkurinn ætli svo að fella fyrirhugaðan samning sem hann bæri þó augljóslega ábyrgð á að gerður yrði við ESB. Það var og er og verður mótsögn og tvöfeldni sem kemur viðkomandi flokk í koll fyrr en síðar, eins og reyndin hefur orðið hjá VG,“ segir hann ennfremur.