Neituðu öll sök

Allir sakborningar í máli lögreglustjórans í Reykjavík gegn níu Hraunavinum neituðu sök við þingfestingu málsins í morgun. Fólkinu, tveimur körlum og sjö konum, er gefið að sök að hafa ekki farið að ítrekuðum fyrirmælum lögreglu er það mótmælti lagningu Álftanesvegar í Garðahrauni í október sl., en það var beðið um að yfirgefa vinnusvæðið. 

Níumenningunum er öllum gefið að sök að hafa brotið lögreglulög, n.t.t. gerst brotlegir við 19. grein laganna, sem snýst um skyldu til að hlýða fyrirmælum lögreglu. Hún er svohljóðandi:

„Almenningi er skylt að hlýða fyrirmælum sem lögreglan gefur, svo sem vegna umferðarstjórnar eða til þess að halda uppi lögum og reglu á almannafæri.“

Níumenningarnir tjáðu sig ekki frekar um sakargiftirnar en þeir óskuðu allir eftir fresti til að skila greinargerð og var ákveðið að málið verði næst tekið fyrir 24. febrúar nk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert