Ekki gengur að einstakir fréttamenn geri sjálfa sig stærri en stofnunina og geti á þeim grundvelli stefnt mönnum sem gagnrýna RÚV fyrir dómstóla. Þetta sagði Páll Vilhjálmsson fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag en hann krefst þess að meiðyrðamáli sem Anna Kristín Pálsdóttir höfðaði gegn honum verði vísað frá.
Málið höfðaði Anna Kristín eftir að Páll skrifaði færslu á vefsvæði sitt um frétt sem hún flutti 16. júlí í fyrra. Í færslunni sakaði Páll hana um að falsa ummæli forseta leiðtogaráðs Evrópusambandsins þannig þau féllu betur að málstað ESB-sinna.
Páll, sem kýs flytja mál sitt sjálfur, krefst þess að málinu verði vísað frá og nefndi í dag fyrir því þrjár ástæður. Í fyrsta lagi að Anna Kristín sé ekki málsaðili heldur Ríkisútvarpið. Í kjölfar fréttarinnar var sagt að Anna Kristín hefði tekið saman og Páll telur það ekki nægja til þess að hún verði sögð höfundur fréttarinnar. „Að taka saman er vitanlega ekki það sama og að semja frétt. Að taka saman gefur til kynna að þetta sé samvinnuverkefni.“ Hann sagði að það hlyti að vera skilyrði að skýrt væri tekið fram hver væri höfundur fréttar þegar um væri að ræða meint meiðyrði vegna höfundarverks.
Í öðru lagi hafi ekki verið sýnt fram á að Anna Kristín hafi verið fréttamaður RÚV í Brussel þegar fréttin var flutt. Páll benti á að þess væri krafist að eftirfarandi ummæli yrðu dæmd dauð og ómerkt:
Þar sem þess sé krafist að efstu ummælin verði dæmd dauð og ómerk þurfi það að teljast sannað að Anna Kristín hafi verið fréttamaður RÚV í Brussel. Þar sem það hafi ekki verið gert - þrátt fyrir áskoranir - geti það ekki verið grundvöllur stefnu. Hin tvö ummælin leiði svo af þeim fyrstu.
Þriðja og síðasta ástæðan sem Páll nefndi er að Anna Kristín sé opinber starfsmaður og sérstök úrræði gildi þegar opinberir starfsmenn fái á sig gagnrýni. Vísaði hann í 242. grein almennra hegningarlaga þar sem segir að hafi ærumeiðandi móðgun eða aðdróttun verið beint að manni sem er eða verið hefur opinber starfsmaður, og móðgunin eða aðdróttunin varðar að einhverju leyti það starf hans, þá skuli slíkt brot sæta ákæru eftir kröfu hans.
Páll sagði augljóst hvers vegna Anna Kristín hefði ekki valið að nota rétt og lögformleg úrræði sem ætluð væru opinberum starfsmönnum. Þá hefði saksóknari þurft að meta málatilbúnað hennar og mjög ólíklegt væri að hann hefði fallist á þann málatilbúnað, að bloggið væri ærumeiðandi.
Að lokum sagði Páll að hvert og eitt þessara atriða væri til þess fallið að vísa bæri málinu frá.
Kristján Þorbergsson, lögmaður Önnu Kristínar, krafðist þess að kröfum Páls yrði hafnað og skýrði í stuttu máli hvers vegna.
Í fyrsta lagi hefði Anna Kristín verið nafngreind með skýrum og afdráttarlausum hætti eftir að hún flutti fréttina 16. júlí í fyrra. „Eftir að hún las upp fréttina sagði þulur að Anna Kristín hefði tekið saman. Þessi orð vísa til samningar á frétt, gagnstætt því sem stefndi heldur fram. Hún flutti í eigin nafni, sína eigin frétt.“
Hvað aðra málsástæðu Páls varðar þá benti Kristján á að það hefði verið Páll sjálfur sem sagði á bloggi sínu að Anna Kristín væri fréttamaður RÚV í Brussel. Það væei ranghermi af hálfu Páls og hefði Anna Kristín ekkert gert til að gefa það til kynna. Því væri mótmælt að ranghermi Páls gæti varðað frávísun í málinu.
Þá mótmælti Kristján einnig þriðju og síðustu ástæðu Páls. Benti hann á að lög um opinbera starfsmenn næðu ekki til starfsmanna hlutafélaga í eigu ríkisins og kæmi það skýrt fram í lögunum. Það væri því langsótt að segja að Anna Kristín væri opinber starfsmaður.
Kristján sagði jafnframt, að þótt dómurinn féllist á að Anna Kristín væri opinber starfsmaður þá væri skýrt tekið fram í greinargerð með 242. grein almennra hegningarlaga að opinberir starfsmenn gæti höfðað einkameiðyrðamál ef þeir kysu það heldur og ef hið opinbera neitaði að höfða mál.
Frétt mbl.is: Segir fréttamann RÚV hóta sér
Frétt mbl.is: Vildi upplýsingar um leiðaraskrif
Frétt mbl.is: Fréttamaður stefnir bloggara