Hagstæðir háloftavindar yfir norðanverðu Atlantshafi síðastliðinn fimmtudag urðu til þess að allar aðalflugleiðir milli Evrópu og Ameríku lágu yfir Íslandi. Miklar annir voru í flugstjórnarmiðstöðinni í Reykjavík og þurfti að manna ellefu af fimmtán starfsstöðvum sem er álíka og gerðist í eldgosinu í Eyjafjallajökli þegar beina þurfti allri flugumferð yfir hafið norður fyrir gosstöðina. Flestar flugvélar á fimmtudaginn flugu um 2.800 km leið innan íslenska flugstjórnarsvæðisins en það er nærri tvöföld sú vegalengd sem jafnan er flogin innan svæðisins, segir í frétt frá Isavia.
Flugleiðir yfir Atlantshaf ráðast af legu háloftavinda sem nýttir eru til þess að stytta flugtíma og eru breytilegir frá degi til dags. Að jafnaði fer um þriðjungur af heildarumferðinni um íslenska flugstjórnarsvæðið en undanfarna mánuði hefur óvenjuhátt hlutfall farið um svæðið. Umferðin í desember var nærri 30% meiri en í sama mánuði árið á undan og ljóst er að janúar verður einnig metmánuður. Ágústmánuður á síðasta ári var stærsti mánuður frá upphafi en þá lögðu 13.039 flugvélar leið sína um íslenska flugstjórnarsvæðið og var flogin heildarvegalengd 18,6 milljónir kílómetra sem jafngildir 48 tunglferðum.
Íslenska flugstjórnarsvæðið er um 5,4 milljónir ferkílómetra að stærð og eitt hið stærsta í heimi. Það nær frá norðurpól, suður fyrir Ísland, yfir Grænland og austur undir Svalbarða og Noreg eða álíka og allur landmassi Evrópu utan Rússlands. Nærri 8% heildaraukning varð á svæðinu á síðasta ári en til samanburðar varð einungis um 3% aukning á næsta flugumferðarsvæði fyrir sunnan, sem kennt er við Shanwick á Írlandi, og er sú aukning svipuð og heildaraukning flugumferðar yfir Atlantshaf.