Fimmtán þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi þess efnis að þingið biðjist afsökunar á aðgerðum íslenskra stjórnvalda í garð iðkenda Falun Gong sem komu hingað til lands í júní árið 2002 í tengslum við opinbera heimsókn Jiang Zemin, þáverandi leiðtoga Alþýðulýðveldisins Kína. Ríkisstjórninni verði falið að koma afsökunarbeiðninni á framfæri.
„Þá ályktar Alþingi að fela ríkisstjórninni að sjá til þess að þeir einstaklingar sem vistaðir voru gegn vilja sínum í Njarðvíkurskóla, var vísað frá landinu eða meinað að nota gilda flugmiða í flugvélar Icelandair víða um heim umrædda daga fái viðhlítandi bætur,“ segir ennfremur í þingsályktunartillögunni en þetta er í þriðja sinn sem hún er lögð fram. Síðast var tillagan lögð fram árið 2012 af Guðmundi Steingrímssyni, formanni Bjartrar framtíðar.
Guðmundur er fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögunnar að þessu sinni en aðrir flutningsmenn eru Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, og Birgitta Jónsdóttir, kafteinn Pírata. Einnig Björt Ólafsdóttir, Brynhildur Pétursdóttir, Óttarr Proppé, Páll Valur Björnsson og Róbert Marshall, þingmenn Bjartrar framtíðar, Helgi Hrafn Gunnarsson og Jón Þór Ólafsson, þingmenn Pírata, Katrín Júlíusdóttir og Valgerður Bjarnadóttir, þingmenn Samfylkingarinnar, og Steingrímur J. Sigfússon og Svandís Svavarsdóttir, þingmenn VG.