Kosin var ný stjórn Ríkisútvarpsins á þingfundi á Alþingi í dag. Sex fulltrúar voru kosnir af lista stjórnarmeirihlutans en þrír af lista stjórnarandstöðunnar. Listi stjórnarmeirihlutans fékk 38 atkvæði en listi stjórnarandstöðunnar 25 en atkvæðagreiðslan fór fram skriflega.
Nýja stjórn skipa Ingvi Hrafn Óskarsson, Magnús Stefánsson, Guðrún Nordal, Úlfhildur Rögnvaldsdóttir, Ásthildur Sturludóttir, Guðlaugur G. Sverrisson, Margrét Frímannsdóttir, Björg Eva Erlendsdóttir og Friðrik Rafnsson. Varamenn eru Jón Hákon Magnússon, Árni Gunnarsson, Gabríela Friðriksdóttir, Katrín Sigurjónsdóttir, Jóhanna Pálsdóttir, Þuríður Bernódusdóttir, Árni Gunnarsson, Hlynur Hallsson og Lilja Nótt Þórarinsdóttir.
Stjórnarandstæðingar gagnrýndu stjórnarliða harðlega fyrir að virða ekki samkomulag sem gert hafi verið. Ekki hefði verið samþykkt á síðasta ári að fjölga stjórnarmönnum í níu ef fyrir lægi að stjórnarliðar ætluðu að taka þá tvo fulltrúa sem fjölgað væri um. Einnig var gagnrýnt að það þýddi að Píratar fengju engan fulltrúa í stjórn Ríkisútvarpsins ólíkt því sem verið hefði í fráfarandi stjórn. Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, kallaði eftir því að almenningur kysi stjórnina.
Tveir listar voru lagðir fram, A-listi stjórnarliða og B-listi stjórnarandstöðunnar. Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, fór í ræðustól og sagðist þrátt fyrir að vera jafnaðarmaður hvetja sem flesta til þess að kjósa X-B. Róbert Marshall, þingmaður Bjartrar framtíðar, sakaði ríkisstjórnina um valdsgræðgi. Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra, tók einnig til máls og sagði að eðlilegt væri að stjórn Ríkisútvarpsins endurspeglaði niðurstöður síðustu þingkosninga.
Forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, var sakaður um að hafa beitt sér fyrir því að samkomulagið væri dregið til baka. Hafnaði hann því hafa komið að málum með þeim hætti. Sigrún Magnúsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, hafnaði því að sama skapi að hafa gert samkomulag um að skipa ætti í stjórn Ríkisútvarpsins þannig að fimm fulltrúar kæmu frá stjórnarliðum og fjórir frá stjórnarandstöðunni. Hún hafi hugsanlega varpað því fram í samtölum í þinghúsinu en ekkert samkomulag hafi verið gert.