„Ég verð ég að lýsa yfir vonbrigðum mínum með það að hótanir um viðskiptaaðgerðir séu á ný í umræðunni. Slíkar aðgerðir væru ólögmætar og það ýtir ekki undir jákvæðan framgang viðræðna að draga þær inní umræðuna,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, atvinnuvegaráðherra, um ummæli Mariu Damanaki, sjávarútvegsstjóra Evrópusambandsins. Í netútgáfu Spiegel í gærkvöldi hótaði hún Íslendingum og Færeyingum refsiaðgerðum gengju þeir ekki til samninga fyrir vikulok.
Sigurður Ingi segist ekki telja rétt að tjá sig um gang eða beint inntak þeirra viðræðna sem nú standa yfir á meðan þær fara fram, en viðræðufundur stendur nú yfir í Bergen í Noregi.
„Til þess að samningar náist verða öll strandríkin að vera tilbúin til þess að gefa eitthvað eftir. Færeyingar þurfa nú að taka sig saman í andlitinu og nálgast viðræðurnar lausnamiðað og Noregur að huga að orðspori sínu sem fiskveiðiþjóð sem stýrir veiðum með sjálfbærum hætti og hefur vísindaráðgjöf að leiðarljósi. Það er einstakt tækifæri að leysa deiluna nú sem við höfum lagt okkar ýtrasta af mörkum til að nýta og ég kalla eftir því að hin ríkin geri það sama.
Þau ár sem deilan hefur staðið yfir hefur málstaður Íslands staðfastlega verið sá að málið skuli leysa á vísindalegum grunni og stuðlað skuli að sjálfbærum veiðum. Styðjast þarf við nýjustu upplýsingar um göngumynstur stofnsins, fæðustöðvar hans og horfa til þeirra breytinga sem hafa orðið í hafi. Málið ber að nálgast í gegnum samningaviðræður, ekki hótanir um ólöglegar viðskiptaþvinganir.
Slitni upp úr viðræðum nú orsakast það ekki af skorti á samningsvilja okkar. Ísland hefur lagt sitt af mörkum til þess að nálgast niðurstöðu. Samningamenn okkar reyna nú til þrautar að leita leiða að samkomulagi í Björgvin en ég get því miður ekki sagt að það sé augljóst að það takist,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson.