Ögmundur Jónasson, alþingismaður, lýsti því yfir á þingi Evrópuráðsins, sem nú stendur yfir í Strassborg, að Íslendingar hefðu á undanförnum árum staðið í farabroddi í stuðningi við Palestínumenn í sjálfstæðisbaráttu þeirra.
Þannig hefðu Íslendingar samhljóða samþykkt á Alþingi viðurkenningu á fullvalda og sjálfstæðri Palestínu og jafnframt verið eina vestræna ríkið sem stóð að tillögu um að Palestína fengi aukin réttindi á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.
Hann minntist þess þegar fyrrverandi utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson, neitaði að taka á móti ráðherra frá Ísrael sem vildi ná fundi hans til að „leiðrétta“ íslensku ríkisstjórnina eftir að hernaðarofbeldið á Gaza var fordæmt af Íslands hálfu, samkvæmt fréttatilkynningu.
„Umræðan var í tilefni þess að Evrópuráðið hefur tekið upp samstarf við palestínsk stjórnvöld um eflingu lýðræðis og réttarríkis í Palestínu. Evrópuráðið samþykkti ályktun þar sem fagnað er þeim skrefum sem stigin hafa verið í þessa veru en að vænst sé frekari aðgerða því enn sé þörf á átaki til að styrkja réttarríkið í Palestínu,“ segir ennfremur í tilkynningu.