Fylli skattframtalið rangt út

Rósa Braga

Samtök meðlagsgreiðenda hvetja einstæða umgengnisforeldra til borgarlegrar óhlýðni við útfyllingu skattframtalsins fyrir árið 2013. Hvetja þeir þá til að auðkenna sig sem einstæða foreldra við skráningu upplýsinga. Með því sé framgöngu hins opinbera í garð umgengnisforeldra mótmælt.

„Með þessu minnum við einnig á skráningarvandann sem birtist með þeim hætti að umgengnisforeldrar eru ekki auðkenndir í bókum hins opinbera og því ekki rannsóknarhæfur þjóðfélagshópur,“ segir í tilkynningu frá samtökunum.

Þau benda á að í skattframtalinu standi skattborgurum til boða að auðkenna sig sem einstæða foreldra, vegna hvers kyns ívilnana sem einstæðir foreldrar þiggja frá ríki og sveitafélögum. Umgengnisforeldrar séu hins vegar ekki skráðir sem slíkir og staða þeirra gagnvart velferðarkerfinu sé því önnur og verri. „Að endingu viljum við með þessum aðgerðum minna á að einstæðir umgengnisforeldrar, eru einstæðir foreldrar, hvort heldur sem ríkið viðurkennir það eða ekki.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert