Herferð um ást á Prins póló

„Ákveðið var að taka upp stóra auglýsingu um Prins póló á Íslandi því súkkulaðið er svo vinsælt þar. Íslendingar hreinlega elska það eins og Pólverjar, er það ekki?“ segir Anna Krzyzanowska sem starfar hjá almannatengslafyrirtækinu Rc2 - Raczkiewicz Chenczke Consultants í Póllandi. Hún var stödd hér á landi í tengslum við tökur á stórri pólskri auglýsingaherferð um Prins póló sem lauk í síðustu viku.

Herferðin var tekin upp víðs vegar um Ísland og skartar meðal annars íslenskum leikara, Davíð Frey Þórunnarsyni, í aðalhlutverki. Ellefu manna teymi kom hingað frá sjö pólskum fjölmiðlum meðan á tökum stóð. Komu þeir frá dagblöðum, netmiðlum og sjónvarpi til að kynna sér auglýsinguna; land og þjóð.

Til að mynda verður stórt innslag um heimsóknina til Íslands í vinsælum þætti sem er sýndur í morgunsjónvarpi í Póllandi. „Okkur langaði að sýna pólsku þjóðinni söguna af vinsældum súkkulaðisins á Íslandi,“ segir Anna.

Á Íslandi frá 1955

Elstu gögn af tilveru Prins póló á Íslandi eru frá árinu 1955. Ástæður vinsælda súkkulaðisins má rekja til vöruskiptasamnings sem gerður var á milli Íslands og Póllands. Íslendingar fluttu út síld en fengu í staðinn nytjavörur á borð við timbur, vodka og Prins póló. Á þessum tíma voru innflutningshömlur á sælgæti en Ásbjörn Ólafsson, stofnandi samnefndrar heildsölu, fann leið til þess að flytja gotteríið inn og færði það til bókar sem kex. Af þeim sökum var Prins póló eina innflutta sælgætið á landinu þar til innflutningshöft voru afnumin árið 1982. Samkvæmt upplýsingum frá heildsölunni hefur bragðið haldist eins frá upphafi. Hins vegar hafa umbúðirnar breyst. Gömlu umbúðirnar voru ekki innsiglaðar og því gat loft leikið um súkkulaðið sem var fyrir vikið oft stökkara og þurrara en það er nú.

„Þetta kom okkur skemmtilega á óvart. Við fréttum af auglýsingunni þegar tökum var að ljúka og höfum ekkert séð. Við vonum að þetta verði góð landkynning,“ segir Svava Kristjánsdóttir, sviðsstjóri hjá Ásbirni Ólafssyni ehf.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert