Hlutu bókmenntaverðlaun Íslands

Frá afhendingu bókmenntaverðlaunanna í dag.
Frá afhendingu bókmenntaverðlaunanna í dag. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Bókmenntaverðlaun Íslands fyrir árið 2013, sem afhent voru á Bessastöðum í dag, hlutu þau Andri Snær Magnason, Sjón og Guðbjörg Kristjánsdóttir. Andri Snær hlaut verðlaunin í flokki barna- og unglingabóka fyrir bók tíma Tímakistan, Sjón í flokki fagurbókmennta fyrir bók sína Mánasteinn - drengurinn sem aldrei var til og Guðbjörg í flokki fræðirita og bóka almenns efnis fyrir Íslensku teiknibókina. Verðlaunaféð er ein milljón króna fyrir höfund hvers verðlaunaverks.

„Þetta er frábær viðurkenning og gaman að fá verðlaun í nýjum flokki, enda er þetta mjög mikilvægur flokkur. Barnabókmenntir eru ein mikilvægasta bókmenntagreinin, en hafa stundum ekki fengið nógu mikla virðingu og athygli,“ sagði Andri Snær Magnason af þessu tilefni. Sagðist hann sérlega ánægður með viðbrögð lesenda við bókinni og benti á að hann hefði viljað skrifa bók sem höfðað gæti til lesenda frá sjö til 99 ára aldurs.

„Það er afskaplega gaman að fá Íslensku bókmenntaverðlaunin. Þetta eru stærstu bókmenntaverðlaun landsins og þótt ég hafi fengið verðlaun erlendis þá er maður auðvitað alltaf fyrst og fremst að skrifa fyrir sitt samferðafólk og tala til þess. Þess vegna skrifa ég á íslensku og er að vinna með efni sem snertir okkur, bæði í sögu okkar og samtímanum,“ sagði Sjón en hann hefur þrisvar áður verið tilnefndur til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.

„Það gleður mig afskaplega mikið að fá þessi verðlaun fyrir ævistarfið. Verðlaunin eru mér jafnframt hvatning og styrkur til að halda áfram að rannsaka íslenska miðaldalist og klára vinnuna sem eftir er við ensku útgáfu bókarinnar,“ sagði Guðbjörg Kristjánsdóttir.

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, tilkynnti val lokadómnefndar á verðlaunahöfum en formaður lokadómnefndar, skipaður af forseta Íslands, var Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur, en með henni sátu í lokadómnefnd formenn tilnefninganefndanna þriggja, Guðni Kolbeinsson, Þorgerður E. Sigurðardóttir og Þóra Arnórsdóttir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert