Konurnar einfaldlega í betra formi

Fimm konur útskrifuðust sem lögreglumenn í fyrra en 14 karlmenn. …
Fimm konur útskrifuðust sem lögreglumenn í fyrra en 14 karlmenn. Útlit er fyrir að þessar tölur blasi öðruvísi við í ár. Ómar Óskarsson

Það vakti töluverða athygli þegar Lögregluskóli ríkisins tilkynnti að  kvenkyns nemendur skólans væru í meirihluta, og það ekkert naumlega.

Af þeim 16 nemendum sem boðin var skólavist voru 12 konur, 75% nemenda og 4 karlar, 25% nemenda.

Af þeim þáðu 11 konur skólavistina. Í skólanum eru því 11 konur og 5 karlar, sem gerir hlutföllin 68% konur og 32% karlar. 

Þetta er algjör viðsnúningur frá því sem var. Í desember í fyrra útskrifuðust 19 nemendur úr skólanum, þar af 5 konur, 26% útskrifaðra. Árið áður útskrifuðust 20, hvar af 7 voru konur, 35% útskrifaðra.

52% kvenna komust inn

Tölfræðin vakti því nokkra undrun. Af þeim 68 sem stóðust inntökupróf Lögregluskólans fyrir námsárið 2014 voru 45 karlar og 23 konur. Inntökuprófin felast í íslenskuprófi enskuprófi, þekkingarpróf, þrekpróf og sálfræðimati. Nánari útlistun á því í hverju prófin felast má nálgast á vef lögreglunnar.

Af þessum tölum má sjá að aðeins 8% þeirra karla sem komust í gegnum inntökuprófin náðu þeim árangri að komast inn í skólann, en 52% kvenna.

Þessar tölur virðast við fyrstu sín sérstakar. Séu þær bornar saman við inntökutölur síðari ára blasir hins vegar við önnur mynd.

Eins og áður segir voru konur í lögreglunámi einungis 5 í fyrra á móti 14 karlmönnum árið 2013. Athygli vekur að af þeim sem komust í gegnum inntökupróf skólans fyrir það ár voru einungis 7 konur.

Það þýðir að 71% þeirra kvenna sem komust gegnum prófin voru metnar hæfar til að hefja nám á móti 38% karlmanna. 2012 stóðust aftur 7 konur inntökuprófin. 6 komust inn í skólann - 86%.

Af þessu sést að þær konur sem á annað borð komast gegnum inntökupróf lögregluskólans hafa með nokkurri vissu mátt gera ráð fyrir því að fá skólavist. Það virðist hins vegar hafa breyst í ár, því miklu lægra hlutfall kvenna sem stóðust inntökuprófin var boðið að hefja nám.

Hefði sama meðalhlutfall kvenna sem sótti um komist inn í skólann í ár og undanfarin tvö ár hefðu konur átt að vera 18, tveimur fleiri en var veitt skólavist í heildina. Þegar nemendur eru valdir inn í skólann er nokkurn veginn að jöfnu horft til árangurs umsækjenda í inntökuprófunum og umsagnar valnefndar eftir viðtal við umsækjanda.

Einfaldlega í betra formi

Þessar tölur ættu að útrýma vangaveltum um hvort valnefndin hafi með einhverjum hætti handstýrt því hversu margar konur komust inn í skólann í ár til að mæta þeirri gagnrýni sem lögreglan hefur orðið fyrir vegna bágrar stöðu kvenna innan hennar vébanda, eins og mbl.is hefur greint frá, meðal annars hérhér, hér og hér.

Gunnlaugur V. Snævarr, formaður valnefndar Lögregluskóla ríkisins, telur að þessi mikla fjölgun kvenkyns umsækjenda sé vegna þeirrar umræðu sem hefur verið undanfarið um stöðu kvenna innan lögreglunnar og vegna hvatningar ráðamanna til kvenna um að sækja um skólavist.

Skýringuna við því hvers vegna svona mikill fjöldi kvenna komst gegnum inntökuprófin vera einfalda: Konur séu í betra formi en áður og líkamlega burðugri.

Áhyggjur Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur, lögreglustjóra á Suðurnesjum um að inntökuprófin séu til þess fallin að hindra konur í að komast inn í skólann, virðast því óþarfar. Sigríður sagði í fjölmiðlum að mögulega þyrfti að breyta inntökuprófunum og endurmeta kröfur varðandi íslenskukunnáttu og líkamlegt atgervi.

Frá útskrift Lögregluskólans í desember í fyrra.
Frá útskrift Lögregluskólans í desember í fyrra. mbli.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert