Meirihluti borgarráðs Reykjavíkur samþykkti í dag bókun þar sem lýst er fullum stuðningi við stjórn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins og staðfestir umboð hennar vegna endurnýjunar á samningi á sjúkraflutningum SHS. Ennfremur er skorað á ríkisstjórnina að standa við þann samkomulagsgrundvöll sem gerður hafi verið á milli aðila í febrúar 2013.
„Samningur á grundvelli samkomulagsins liggur fyrir en hefur hvorki verið undirritaður né hefur ríkið greitt fyrir þjónustuna í samræmi við kostnaðarmat sem honum lá til grundvallar og unnið var af óháðum aðila. Á meðan svo er niðurgreiða sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu sjúkraflutninga en taka skal fram að sjúkraflutningar eru á verksviði ríkisins samkvæmt lögum. Borgarráð lýsir vonbrigðum sínum vegna skilningsleysis heilbrigðisráðuneytisins á því að ríkið þurfi að greiða þann kostnað sem ríkinu ber og hefur nú leitt til þess að stjórn SHS hefur þurft að grípa til þess neyðarúrræðis að biðja um verklok vegna þjónustunnar. Það neyðarúrræði byggist ekki á einlægum vilja til þess að slíta samstarfi ríkis og sveitarfélaga og skilja að sjúkraflutninga og slökkvistarf, heldur á algjöru vonleysi gagnvart stöðu mála,“ segir ennfremur.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá og vísuðu í eigin tillögu þar sem einnig var lýst yfir stuðningi við stjórn slökkviliðsins. Því væri hins vegar beint til SHS að fallast á ósk heilbrigðisráðherra um að hefja að nýju samningaviðræður um sjúkraflutninga. Óvissa um þá hafi staðið of lengi og því yrði aðeins gefinn einn mánuður til þess að ná samkomulagi. Grunnur að samkomulagi væri sá samningsgrundvöllur sem lægi fyrir á milli aðila og því ekki ástæða til að gefa lengri tíma.
Hliðstæðar stuðningsyfirlýsingar við stjórn SHS og samþykkt var í borgarráði hafa að undanförnu verið samþykktar af Garðabæ, Kópavogi, Hafnarfirði og Mosfellsbæ.