Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að framlag ríkisstjórnarinnar til kjarasamninganna hafi valdið vonbrigðum. Í viðtali við Morgunblaðið gagnrýnir hann jafnframt ríkisstjórnina harðlega fyrir að hafa haldið áfram á sömu braut og sú fyrri, að auka skattbyrði atvinnulífsins verulega.
„Ég held að það megi segja að aðgerðir ríkisstjórnarinnar í verðlagsmálum hefðu mátt vera meira afgerandi. Það er alveg ljóst,“ segir hann.
„Með hliðsjón af því fordæmi sem sveitarfélögin settu og með hliðsjón af aðgerðum fyrirtækja – en vel á annað hundrað fyrirtækja hafa gefið yfirlýsingar um óbreytt eða lægra verð á milli ára – þá er það veikt að ætla eingöngu að draga hluta hækkana til baka,“ segir Þorsteinn meðal annars í samtalinu.