„Ég tel næstum því 100% líkur á því að Bretland yfirgefi Evrópusambandið á næstu árum,“ segir dr. Richard North, rithöfundur og stjórnmálaskýrandi, en hann mun flytja erindi í hádeginu í dag um nýjustu ritgerð sína, Noregskosturinn (The Norway Option), þar sem hann færir rök fyrir þeim valkosti Breta að ganga aftur í EFTA og taka upp EES-samninginn í stað þess að vera áfram í Evrópusambandinu. Erindið hefst í stofu 101 í Odda hjá Háskóla Íslands kl. 12.
North segir að nafngiftin sé komin til þar sem Noregur sé stærsta ríkið af þeim þremur sem eru í EFTA og EES. „Ég hefði, til að gæta sanngirni, átt að láta heitið vera Noregs-Íslands-Liechtenstein-kosturinn,“ segir North, en bendir jafnframt á með glettni að skammstöfun þessara þriggja landa á ensku myndi vera „Núll-kosturinn“.
North tók fram að helsta gagnrýnin gegn hugmynd sinni væri sú að efnahagur Noregs væri svo ólíkur efnahag Bretlands, að Noregs-kosturinn ætti ekki við. Efnahagur Noregs byggðist á olíu og mannfjöldinn væri mun minni en á Bretlandi. Noregur væri því líkari Skotlandi en öllu Bretlandi.
En hvers vegna ættu Bretar þá að ganga í EES? „Við myndum vilja vera jafnvaldamikil og þið,“ segir North, „og hafa okkar málefni í eigin höndum.“ Staða Íslands þyki því öfundsverð á Bretlandi. North segir að það sem hann hafi komist að, þegar hann var að rannsaka Noregskostinn, sé það hversu valdamikil í raun þessi lönd gætu verið á alþjóðavettvangi.
„Hnattvæðingin hefur gjörbreytt valdajafnvæginu á milli Evrópusambandsins og ríkja sem standa utan þess,“ segir North. Reglur Evrópusambandsins séu í síauknum mæli samdar á alþjóðlegu stigi, og Norðmenn hafa áttað sig á því. North nefnir sem dæmi viðtal sem hann tók við norskan dýralækni, sem vann fyrir norsk stjórnvöld, og sat fyrir þeirra hönd sem formaður nefndar Alþjóðamatvælaskrárráðsins um fisk og fiskafurðir. Í krafti setu sinnar þar hefði Noregur getað haft gríðarleg áhrif á alþjóðlegt lagaumhverfi um fisk og fiskvinnsluvörur, sem Evrópusambandið neyddist síðan til þess að taka upp vegna eigin skuldbindinga undir alþjóðarétti.
„Þannig að Noregur í þessu tilfelli býr til reglurnar fyrir Evrópusambandið, faxar þær til Brussel, þar sem menn neyðast til að taka þær upp, þeir setja stimpil Evrópusambandsins á þær og faxa áfram til Óslóar!“ North segir að fleiri dæmi þessa þekkist nú enda séu alþjóðlegar nefndir af þessu tagi til í nærri þúsunda tali. „Evrópusambandið líkist því einna helst heildsala og dreifingaraðila á lögum og reglugerðum frekar en framleiðanda,“ segir North og bætir við að fyrir Breta skjóti það skökku við að þegar verið sé að semja þær reglur sem á endanum gildi í Bretlandi eigi ríki eins og Ísland, þar sem færri búa en í einu hverfi í London, sæti við borðið, en Bretar ekki, þar sem fulltrúi Evrópusambandsins sjái um það fyrir þeirra hönd. „Íslendingar eru því miklu valdameiri í alþjóðasamfélaginu en við.“