Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, var alls 94 daga erlendis á árinu 2013, þar með eru taldir frídagar erlendis. Ferðakostnaðurinn nam 7,9 milljónum kr. en forsetinn greiddi sjálfur allan kostnað við einkaferðir sínar.
Þetta kemur fram í svari forsætisráðherra við fyrirspurn frá Svandísi Svavarsdóttur, þingmanni Vinstri grænna, um ferðalög forseta Íslands og maka hans.
Í svari ráðherra segir, að ítarlegar upplýsingar um embættisferðir forseta Íslands, ráðstefnur, málþing, fundi, viðræður og aðra atburði sem forseti taki þátt í erlendis sé að finna á heimasíðu forsetaembættisins og í fréttatilkynningum. Þá séu í Stjórnartíðindum árið 2013 upplýsingar um allar utanferðir forseta eins og tíðkast hefur.
Dýrasta einstaka ferðin var þegar forseti tók þátt í ráðstefnum um norðurslóðir í Washington, fundaði með þingmönnum í öldungadeild Bandaríkjaþings, tók þátt í öðrum fundum í borginni í Washington og tók þátt í ráðgjafanefnd Sameinuðu þjóðanna og Alþjóðabankans um hreina orku; heimsótti Rannsóknarstöð hreinnar orku í Colorado. Ferðin kostaði 1.329.602 kr.
Ódýrasta ferðin var þegar forsetinn var viðstaddur knattspyrnulandsleik Íslands og Króatíu í Zagreb. Ferðin kostaði 60.146 kr.