Sigurjón Þ. Árnason og Elín Sigfúsdóttir, fyrrverandi stjórnendur Landsbankans, misnotuðu aðstöðu sína og stefndu fé bankans í verulega hættu, með því að fara út fyrir heimildir til veitingar ábyrgða. Þetta kemur fram í ákæru sérstaks saksóknara á hendur Sigurjóni og Elínu.
Ákæran er í tveimur liðum. Fram kemur í þeim fyrri, að þau hafi samþykkt og undirritað fyrir hönd Landsbankans sjálfskuldarábyrgðir bankans á lánsamninga Kaupþings banka þann 4. júlí 2006 við félög sem eru skráð í Panama. Annað lánið var að fjárhæð 2,5 milljarðar króna en hitt 4,3 milljarðar. Fyrra lánið var tryggt með veði í hlutabréfum í Landabankanum að nafnvirði 122,5 milljónir króna en hitt var tryggt með verði í hlutabréfum í Landsbankanum að nafnvirði 210,8 milljónir kr. Bæði lán voru á gjalddaga 30. júní 2007.
Í ákærunni segir, að ábyrgðirnar hafi verið veittar án utanaðkomandi trygginga. Fram kemur, að Sigurjón og Elín hafi afgreitt ábyrgðirnar á milli funda lánanefndar Landsbankans og bókað hafi verið um þá afgreiðslu í fundargerð lánanefndar 5. júlí 2005 og aftur 12. júlí 2006.
Í öðrum lið ákærunnar segir, að þau hafi samþykkt og undirritað fyrir hönd Landsbankans, sjálfskuldarábyrgð bankans á lánssamning Kaupþings, dagsetta 29. júní 2007, við félag skráð í Panama að fjárhæð 6,8 milljarðar kr. Lánið var á gjalddaga 30. júní 2008. Þá segir að ábyrgðin hafi verið veitt án utanaðkomandi trygginga.
„Ákærðu bundu Landsbankann við sjálfskuldarábyrgðina án þess að veiting hennar væri lögð fyrir lánanefnd Landsbankans og án þess að fyllt væri út og staðfest ákvörðunarblað um veitingu ábyrgðarinnar,“ segir m.a. í ákærunni.
Brotin varða við 249. gr. almennra hegningarlaga. Hún er svohljóðandi:
„Ef maður, sem fengið hefur aðstöðu til þess að gera eitthvað, sem annar maður verður bundinn við, eða hefur fjárreiður fyrir aðra á hendi, misnotar þessa aðstöðu sína, þá varðar það fangelsi allt að 2 árum, og má þyngja refsinguna, ef mjög miklar sakir eru, allt að 6 ára fangelsi.“
Loks segir í ákærunni, að Sigurjón, sem annar bankastjóra Landsbankans, og Elín, sem framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs, hafi þekkt, eða hlutu að þekkja, útlánareglur bankans og aðrar starfsreglur bankans í þaula. Sigurjón hafi einnig þekkt vel til félaganna tveggja, sem skráð voru í Panama, og tilgangs þeirra og hafi komið að því að óska eftir fjármögnun fyrir félögin hjá Kaupþingi.
„Hlaut ákærðu að vera ljós sú verulega fjártjónshætta sem fólst í ábyrgðarveitingunum, án fullnægjandi trygginga. Óhjákvæmilegt er að líta svo á að brot ákærðu hafi verið stórfelld.“