Júllaverslun er eina matvöruverslunin í Hrísey, en hún var opnuð aftur í dag eftir vikulanga lokun vegna fjármagnsskorts. „Við þurftum að afla okkur fjár, þetta er erfiður rekstur, en með samhentu átaki tekst okkur að halda þessu uppi,“ segir Júlíus Freyr Theodórsson, eigandi Júllabúðar.
Aðspurður hvað drífi hann áfram í slíkum rekstri segir hann glettinn að líklega sé um óskilgreindan geðsjúkdóm að ræða. „Þetta er það sem ég er að gera og mun gera. Ég hef virkilega gaman af þessu.“ Segja má að vöruúrvalið í Júllabúð sé afar fjölbreytt, því þar má nálgast matvöru, sérvöru og veiðivöru auk móttöku fyrir fatahreinsun og skiptibókamarkað svo fátt eitt sé nefnt.
Júlíus segir mikinn vilja vera meðal heimamanna til þess að halda verslun á svæðinu, en fólk þurfi þó gjarnan að sækja þjónustu á Akureyri og versli þá skiljanlega í leiðinni. Sumarið segir hann vera það sem haldi versluninni gangandi, með umgangi ferðamanna og sumarhúsaeigenda.
Hann upplifir stöðu sína oft erfiða gagnvart birgjum og segir undarlegt að ekki sé hægt að bjóða smáverslunareigendum útsöluverð úr Bónus sem heildsöluverð. „Við smáverslunareigendur stefnum að stofnun samtaka sem sinna okkar hagsmunum en ekki þeirra stærri. Þau samtök sem fyrir eru í dag einblína á mennina með brettaveltuna, en ekki stykkjaveltuna. Okkar hagsmunir fara ekki saman og við pössum ekki inn í kaupmannasamtökin sem fyrir eru í dag.“
Samtökunum er ætlað að styrkja stöðu smáverslunareigenda gagnvart birgjum auk þess að vera andlit þeirra út á við gagnvart stjórnvöldum. „Okkar rödd þarf líka að heyrast. Þetta er þó rétt að skríða af stað og ég á eftir að ná til allra. Þeir sem telja sig eiga heima í slíkum samtökum mega því gjarnan hafa samband. Við stefnum á að halda stofnfund fljótlega.“