Hafnarfjarðarbær er að láta lögfræðinga skoða hvort forkaupsréttur sveitarfélagsins hafi virkjast við sölu skips og aflaheimilda Stálskips ehf. úr bænum.
Von er á lögfræðiálitinu fljótlega eftir helgi, segir Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði, í umfjöllun um söluna á Stálskipum og aflaheimildunum í Morgunblaðinu í dag.
Hún sagði að lög um stjórn fiskveiða gerðu ráð fyrir því að forkaupsréttur virkjaðist þegar skip með aflaheimildum væri selt úr einu sveitarfélagi til annars. Stálskip seldi skip sitt úr landi og aflaheimildirnar til þriggja kaupenda hér innanlands.