Stjórnvöld í Noregi halda því fram að þau hafi gefið afslátt af afstöðu sinni í makríldeilunni og teygt sig langt til þess að reyna að ná samkomulagi. Hins vegar hafi Íslendingar og Færeyingar ekki viljað hvika frá sinni afstöðu í málinu.
Þetta er haft eftir Elisabeth Aspaker, sjávarútvegsráðherra Noregs, á vefsíðu norska sjávarútvegsráðuneytisins, en samningafundi um lausn á makríldeilunni sem fram fór í Bergen í Noregi fyrir helgi lauk á föstudaginn án þess að samið væri um makrílveiðar þessa árs. Aspaker segist hafa vonast í lengstu lög að samningar tækjust.
Haft var eftir Sigurði Inga Jóhannssyni, sjávarútvegsráðherra, í fréttum Ríkisútvarpsins í dag að viðræðurnar hafi strandað á kröfum Norðmanna en norsk stjórnvöld telja sem fyrr segir þvert á móti að þær hafi strandað á Íslendingum og Færeyingum sem ekki hafi gefið nægjanlega mikið eftir.
„Ég er afar vonsvikin. Allir aðilar deilunnar verða að sýna sveigjanleika ef hægt á að vera að ná samningum í svo erfiðu máli. Íslendingar og Færeyingar geta ekki ætlast til þess að fá allar sínar kröfur uppfylltar. Tilboð Norðmanna var mjög rausnarlegt í ljósi útbreiðslu og hegðunarmynsturs makrílsins,“ segir Aspaker ennfremur.
Viðræður á milli Norðmanna og ESB fyrirhugaðar
Fram kemur í Morgunblaðinu í dag að vonir standi til þess að áfram verði rætt um mögulega lausn makríldeilunnar á mánudaginn og jafnvel að viðræður fari fram samhliða samningaviðræðum um kolmunna og norsk-íslensku síldina sem fyrirhugaðar eru á næstunni. Ekkert er þó ákveðið í þeim efnum.
Haft var eftir Mariu Damanaki, sjávarútvegsstjóra Evrópusambandsins, í síðustu viku að ef samningar næðust ekki fyrir helgina myndi sambandið hefja viðræður um makrílinn við Norðmenn eina. Fram kemur á vefsíðu norska sjávarútvegsráðuneytisins að stefnt sé að slíkum viðræðum í Osló í þarnæstu viku.