Hlutverk Strympu aðeins að vera kona

Hlutverk Strympu er það eitt að vera kona. Hún er …
Hlutverk Strympu er það eitt að vera kona. Hún er aðeins viðfang. mbl.is

Þegar kona bendir á skarðan hlut kvenna í íslenskri kvikmyndagerð er viðkvæðið iðulega að viðkomandi sé leiðinleg eða að hún sé að væna fólk um kvenhatur. En það er aðeins verið að benda á að þetta er kerfislægt vandamál sem er viðhaldið ef við tökum ekki meðvitaða ákvörðun um að breyta því. Helga Þórey skoðaði birtingarmyndir kvenna í íslenskum kvikmyndum og komst að ýmsu fróðlegu.

„Við gefum okkur út fyrir að vera mikil kvenfrelsisþjóð og kvenfrelsisstefna svífur vissulega yfir vötnum í sumum íslenskum kvikmyndum frá níunda og tíunda áratugnum. Til dæmis í kvikmynd Ágústs Guðmundssonar, Með allt á hreinu, frá árinu 1982, en þar eru karlarnir úreltir og hallærislegir og spila glataða tónlist sem á ekkert erindi við samtímann, en konurnar eru töff og miklu svalari en þeir, og það sem þær hafa fram að færa á meira erindi í menningunni, þær brjóta múra. Þetta er mjög áhugaverð framsetning og táknræn, kannski er ástæðan sú að myndin kom út árið 1982, sama ár og Kvennalistinn kom fram á sjónarsviðið. Kvikmyndin Stella í orlofi er einnig áhugaverð frá femínísku sjónarhorni, því hana má tengja við sjálfsmynd kvennabaráttunnar á þessum tíma. Stella gerir allt, hún er pabbinn og mamman og sér um allt í fjölskyldunni, er góð húsmóðir og í góðu formi, algjör ofurkona. Í dag vitum við að slík ofurkona er úrvinda,“ segir Helga Þórey Jónsdóttir, bókmennta- og kvikmyndafræðingur, en hún gerði nýlega rannsókn þar sem hún skoðaði birtingarmyndir kvenna í íslenskum kvikmyndum frá árinu 1980 fram til dagsins í dag.

Strumparnir keppast um hylli Strympu

„Ég skoðaði þessar myndir meðal annars út frá Strympulögmálinu, en það er þegar hlutverk kvenpersónunnar er það eitt að vera kona, frekar en að vera kona með hlutverk. Lögmálið er nefnt í höfuðið á Strumpunum því þar er fjölbreytt úrval karlkyns sögupersóna og þeir gegna allir hlutverki, einn er smiður, annar bakari og svo framvegis, en aðeins ein kona, Strympa. Hennar hlutverk er að vera kona, hún er aðeins viðfang og Strumparnir keppast um hylli hennar. Strympur í kvikmyndum eru mjög oft eftirsóknarverðar pæjur, sem karlpersónurnar berjast um. Ég var til dæmis að horfa á stiklu úr kvikmyndinni Harrý og Heimi, sem á að sýna í vor, og þar er aðeins ein kvenpersóna, og hún er auðvitað sexý,“ segir Helga.

Algengara að hafa karlpersónu í kvikmynd

„Það er mjög áhugavert að setja upp þessi Strympugleraugu þegar maður horfir á kvikmynd. Bechdel-prófið er önnur leið til að skoða þetta en þá spyr maður þriggja spurninga: Eru fleiri en ein kona í myndinni? Tala þær saman? Tala þær saman um eitthvað annað en karla? Ég hélt að þetta gæti ekki oft verið svona, en því miður komst ég að því að þetta er svakalega algengt, bæði í íslenskum kvikmyndum og erlendum. Með þessu sjáum við hversu algeng sú ákvörðun er að velja að hafa karlpersónu í kvikmynd frekar en kvenpersónu. Í Nýju lífi og Dalalífi, kvikmyndum Þráins Bertelssonar, eru konur til dæmis mjög oft viðföng og hlutverk þeirra er að hanga utan á atburðarásinni og karlarnir keppa um þær, þær hafa sjaldnast sérstakan persónuleika eða skoðanir.“

Klisjan um konur sem tala illa um hver aðra og um útlit

Helga segir að allskonar klisjur um konur birtist í íslenskum kvikmyndum. „Til dæmis kvenpersónur sem fara að tala illa hver um aðra, um föt, útlit eða kynlíf, þegar þær loks hætta að tala um karlana. Í nýlegum myndum kemur þetta mjög sterkt fram, til dæmis í Svartur á leik, þar sem innkoma einu stelpunnar lofar góðu í upphafi en hún verður fljótt að viðfangi og fjarar út í bakgrunninum.“ Aftur á móti segir Helga að í kvikmyndinni Karlakórnum Heklu, sem leikstýrt er af konu, Guðnýju Halldórsdóttur, birtist ýmislegt úr reynsluheimi kvenna. „Þar koma fyrir mörg lítil atriði þar sem karlar gera lítið úr konum í kringum sig, til dæmis þegar persóna Egils Ólafssonar talar rosalega hátt yfir skemmtiatriði þar sem Diddú leikur sveitastelpu sem er að syngja á sviði, ótrúlega dónaleg hegðun sem margar konur kannast við að hafa orðið fyrir, svona rétt eins og þegar karlar útiloka konur úr samræðum, en það kemur líka fyrir í þessari mynd.“

Eigum nóg af flinkum konum

Helga segir að það þurfi meðvitund þeirra sem búa til kvikmyndir eða sjónvarpsefni til að rétta hlut kvenna á því sviði, það gerist ekki af sjálfu sér. „Þegar konur gagnrýna þetta opinberlega þá er viðkvæðið iðulega að viðkomandi sé leiðinleg eða að verið sé að væna fólk um kvenhatur. En við erum aðeins að benda á að þetta er kerfislægt vandamál sem er viðhaldið ef við tökum ekki meðvitaða ákvörðun um að breyta. Það sem mér fannst mest sláandi í þessari rannsókn er hversu lítið er um íslenska kvenleikstjóra í kvikmyndagerð, hversu langt er á milli mynda eftir konur og hversu fáar myndir eru framleiddar eftir konur. Kvikmyndagerð virðist vera karlafag, bæði hér heima og erlendis og við þurfum að spyrja okkur hvers vegna konur eigi svo takmarkaðan aðgang að þessu fagi, því við vitum að það er fullt af flinkum konum sem hafa bæði reynslu og menntun í kvikmyndagerð.“

Nánar um Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands: www.rikk.hi.is
Helga Þórey Jónsdóttir,
Helga Þórey Jónsdóttir,
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert