Farþegabáturinn Víkingur hóf siglingar á milli Landeyjahafnar og Vestmannaeyja í gær. Báturinn flytur 63 farþega, en hann flytur ekki bíla.
Áætlun hans er miðuð við áætlun almenningssamgangna, þannig að segja má að nú sé hægt að taka strætó frá Reykjavík til Eyja. Um er að ræða tilraunaverkefni innanríkisráðuneytisins og Vegagerðarinnar.
„Báturinn var fullur í fyrstu ferð, þetta er virkilega góð byrjun,“ sagði Sigurmundur Einarsson, skipstjóri og eigandi Víkings, í samtali við Morgunblaðið skömmu eftir að hann kom úr fyrstu ferðinni í gær. „Þetta voru ungir Vestmannaeyingar sem voru að koma af íþróttamóti og þeir voru afar kátir með þetta framtak.“