Varað er við óveðri í Hvalnesi, í Öræfum, á Reynisfjalli og undir Eyjafjöllum, en einnig við Hafnarfjall og á Snæfellsnesi, bæði við Hafursfell og á Fróðárheiði. Þá er varað við sandbyl á Skeiðarársandi.
Samkvæmt upplýsingum veðurfræðings Vegagerðarinnar er spáð mjög hvassri austanátt um tíma í Öræfasveit, hviðum allt að 40-50 m/s, til kl. 16 í dag. Þá er vakin athygli á varasömum akstursskilyrðum á Hellisheiði og í Þrengslum, hríðarkófi og blindu síðdegis. Hviður 30-40 m/s undir Eyjafjöllum um tíma nærri kl. 15 og eins síðdegis undir Hafnarfjalli.
Norðaustan- og austanlands má reikna með dimmri hríð ásamt skafrenningi á fjallvegum upp úr miðjum degi og fram á kvöld. Stormur og ofanhríð einnig vestantil á Norðurlandi, á Vestfjörðum og í Dölum um tíma undir kvöldið sumsstaðar, einnig í byggð. En annars hlánar um land allt á endanum.
Flestar aðalleiðir á Suðurlandi eru greiðfærar en hálkublettir eru þó á Mosfellsheiði og hálka er sumsstaðar í uppsveitum. Hálka er á Bláfjallavegi og í Kjósarskarði en flughált í Efri-Grafningi. Óveður er á Reynisfjalli og undir Eyjafjöllum.
Það er hálka eða hálkublettir á köflum á Vesturlandi, einkum á útvegum. Varað er við óveðri undir Hafnarfjalli, við Hafursfell og á Fróðárheiði.
Á Vestfjörðum er víða hvasst og skafrenningur eða ofankoma. Stórhríð er á Klettshálsi, Þröskuldum og Steingrímsfjarðarheiði og þar er ekki útlit fyrir að opnist í dag. Þæfingur er á kafla í Djúpinu.
Hálka eða snjóþekja er víðast hvar á Norðurlandi og hríðarveður. Stórhríð er á Þverárfjalli og vegur ófær. Stórhríð er einnig á Öxnadalsheiði en ekki fyrirstaða á vegi eins og er. Ófært er bæði á Hólasandi og Dettifossvegi.
Snjóþekja eða hálka er á flestum vegum á Austurlandi og sumsstaðar skafrenningur eða él. Vegur er auður frá Djúpavogi suður um en óveður í Hvalnesi og í Öræfum. Sandbylur er á Skeiðarársandi.