Senda hinsegin fólki á Indlandi baráttukveðjur

Samtökin '78 senda hinsegin fólki á Indlandi baráttukveðjur og hvetja …
Samtökin '78 senda hinsegin fólki á Indlandi baráttukveðjur og hvetja þarlend stjórnvöld til að tryggja sjálfsögð réttindi þess. mbl.is/Ómar

Samtökin '78 senda hinsegin fólki á Indlandi baráttukveðjur og hvetja þarlend stjórnvöld til að tryggja sjálfsögð réttindi þess. Nauðsynlegt sé að tryggja stjórnarskrárvarin mannréttindi í þessu fjölmennasta lýðveldi veraldar.

Í tilkynningu frá samtökunum segir að þær sorglegu fréttir hafi bortist frá Nýju Delhí í desember að hæstiréttur Indlands hafi neitað að staðfesta að 377. grein indverskra hegningarlaga, sem bannar „ónáttúrulegar“ kynferðislegar athafnir, stríði gegn stjórnarskrá landsins.

Mótbárur hæstaréttar veikburða

„Hæstiréttur Indlands virðist staðfastur í ákvörðun sinni og rak hinsegin Indverjum annan löðrung þann 27. janúar með því að vísa beiðni um endurskoðun á dómnum frá, daginn eftir að Indverjar fögnuðu stjórnarskrárafmæli sínu,“ segir í tilkynningunni.

Þá segir að í gervi löggjafar um „ónáttúruleg“ mök heimili 377. grein yfirvöldum að skipta sér af kynhegðun fullorðinna einstaklinga. Þótt lögin nefni samkynhneigð ekki sérstaklega hafi endurvakning þeirra sérlega alvarlegar afleiðingar fyrir hinsegin fólk á Indlandi, enda varð dómurum og málflutningsmönnum tíðrætt um samkynhneigð á meðan á réttarhöldunum stóð.

Þessi þjóðfélagshópur eigi nú á hættu lögsóknir, kúgun og áreiti af hálfu yfirvalda auk útbreiddari fordóma og illrar meðferðar. „Mótbárur hæstaréttar um að lögin „banni ekki ákveðinn samfélagshóp, sjálfsvitund eða hneigð“, heldur aðeins „tilteknar athafnir“, eru veikburða og ganga þvert á sögu og fordæmi,“ segir jafnframt í tilkynningunni.

Dómur yfirréttarins í Delhí frá árinu 2009 komst að þeirri niðurstöðu að 377. greinin bryti í bága við stjórnarskrána en í tilkynningunni segir að dómur hæstaréttar nú í desember virði réttlæti að vettugi og gangi þvert á framfarir í réttindum hinsegin fólks á síðustu misserum.

Fordæma dóminn

„Samtökin '78 fordæma þennan afturhaldssama dóm og lýsa yfir stuðningi sínum við þær milljónir Indverja sem berjast nú fyrir stjórnarskrárbundnum mannréttindum sínum. Samtökin skora enn fremur á ríkisstjórn og löggjafarþing Indlands að fella 377. grein hegningarlaganna umsvifalaust úr gildi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka