Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra segir að ákveðnar kerfisbreytingar innan framhaldsskólanna, þar á meðal stytting náms, geti skapað svigrúm fyrir launahækkanir til kennara.
Í samtali við mbl.is segir Illugi það vera augljóst að þeir samningar sem hafa nú þegar verið gerðir á almennum vinnumarkaði, sem og staða ríkissjóðs, setji hinu opinbera ákveðin mörk.
„Ég tel aftur á móti að möguleiki sé á því að ákveðnar kerfisbreytingar innan framhaldsskólanna, sem ég hef talað fyrir á undanförnum mánuðum, geti skapað svigrúm til hagræðingar sem geti þá verið grunnur að launahækkunum kennara umfram þær sem við höfum séð hjá öðrum,“ segir hann og vísar til þeirra 2,8% launahækkana sem samið var um á almennum vinnumarkaði fyrir jól.
Hljóðið er þungt í framhaldsskólakennurum eftir samstöðufundi sem voru haldnir víða í framhaldsskólum landsins í morgun. Fjölmörg kennarafélög einstakra skóla hafa sent frá sér ályktanir í dag þar sem bent er á að laun framhaldsskólakennara hafi dregist verulega aftur úr viðmiðunarhópum á opinberum markaði.
Eins og mbl.is greindi frá fyrr í dag segir Aðalheiður Steingrímsdóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara, að staðan verði metin á næstu dögum, líklega í lok næstu viku, og þá tekin ákvörðun um hvort boðað verði til aðgerða á borð við verkfall.
„Auðvitað fer enginn í verkfall nema allar aðrar leiðir hafi verið reyndar,“ segir Illugi. „Ég vona það innilega að það takist að koma í veg fyrir slíkt.“
Hann bendir jafnframt á að þær kerfisbreytingar sem hann hefur talað fyrir, svo sem að stytta námstímann í framhaldsskólunum, séu ekki hugsaðar sem hagræðingaraðgerð af hálfu ríkisins. „Þær eru fyrst og fremst hugsaðar til að bæta menntakerfið og að tryggja það að nemendur á Íslandi standi jafnfætis jafnöldrum sínum erlendis. Það er grunnhugsunin,“ útskýrir hann.
„Slík breyting felur þó í sér sparnað og ég hef mikinn metnað til þess að sá sparnaður geti skilað sér til kennara í formi hærri launa.“