Kennarar við Menntaskólann við Hamrahlíð lýsa vonbrigðum yfir „snautlegu tilboði“ samninganefndar ríkisins til hækkunar launa framhaldsskólakennara, þar sem gert er ráð fyrir launahækkun upp á 2,8% í samningi til 12 mánaða. Í sama streng taka kennarar og stjórnendur í Menntaskólanum á Tröllaskaga sem krefjast raunverulegra kjarabóta.
Fundur var haldinn í Kennarafélagi skólans í morgun og í framhaldi sendi félagið frá sér ályktun.
Þar segir að fundurinn bendi á að laun framhaldsskólakennara hafa dregist langt aftur úr stéttum með sambærilega menntun og ábyrgð í starfi. Munurinn nemur nú 17% en sífellt eru gerðar meiri og flóknari kröfur til framhaldsskólakennara í daglegu starfi. Auk þess sýnir skýrsla allra aðila á vinnumarkaði frá október 2013 svart á hvítu að laun framhaldsskólakennara hafa hækkað minna en hjá öllum öðrum á árunum 2006 til 2013. „Slök starfskjör ógna nýliðun og grafa undan gæðum skólastarfs,“ segir í ályktuninni.
„Miskunnarlaus niðurskurður til framhaldsskólans undanfarinn áratug hefur stóraukið vinnuálag kennara og hamlar eðlilegri og brýnni þróun skólastigsins. Við það verður ekki unað lengur. Það er stjórnvöldum á Íslandi til skammar að félagsfólk KÍ í framhaldsskólum neyðist nú enn einu sinni til að fara í harða kjarabaráttu til þess að draga framhaldsskólann upp úr feni lágra launa og óviðunandi aðstöðu.“
Fundurinn skorar á fjármálaráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra að leita allra leiða til að leiðrétta launakjör framhaldsskólakennara, bæta starfsumhverfi stéttarinnar og koma með því í veg fyrir verkfall. Þannig verður stuðlað að því að tryggja gæði menntunar á Íslandi til framtíðar.
Í sama streng taka kennarar og stjórnendur í Menntaskólanum á Tröllaskaga. Þeir krefjast þess að nýir kjarasamningar framhaldsskólakennara við ríkið feli í sér raunverulegar kjarabætur.
„Að lágmarki ætti nýr samningur að fela í sér að bætt verði kjararýrnun sem framhaldsskólakennarar hafa orðið fyrir umfram viðmiðunarstéttir. Munurinn mælist 17% á dagvinnulaunum og 10% á heildarlaunum á tímabilinu 2006 til 2013. Þar að auki er þörf á að bæta starfsaðstæður og kjör ef mögulegt á að vera að auka gæði menntunar,“ segir í ályktun sem kennarar og stjórnendur MT sendu frá sér eftir samstöðufund í morgun.
„Slæm starfskjör ógna nýliðun í stéttinni. Margir munu hætta vegna aldurs á næstu árum en aðsókn í kennaranám hefur hins vegar minnkað og er ekki að efa að slök launakjör og lenging námsins eru aðalástæður þess,“ segir í ályktuninni.