Alhvít jörð á Akureyri allan janúar

Snjóhreinsun á Akureyri.
Snjóhreinsun á Akureyri. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Janú­ar var óvenju­hlýr, sér­stak­lega um landið aust­an­vert þar sem hann var sums staðar sá næst­hlýj­asti frá upp­hafi mæl­inga. Nokkuð vinda­samt var í mánuðinum, úr­koma mik­il aust­an­lands en um landið vest­an- og norðvest­an­vert var tíð í þurr­ara lagi.

Meðal­hiti í Reykja­vík var 2,4 stig, það er 2,9 stig­um yfir meðallagi ár­anna 1961 til 1990 og 1,4 stig­um yfir meðallagi síðustu 10 ára (2004 til 2013). Ívið hlýrra var í janú­ar í fyrra og eru þess­ir mánuðir tveir í 11. og 12. sæti hlýrra janú­ar­mánaða í Reykja­vík.

Meðal­hiti á Ak­ur­eyri var 1,6 stig. Það er 3,8 stig­um ofan meðallags­ins 1961 til 1990 en 1,8 stig­um ofan meðallags síðustu 10 ára. Janú­ar í fyrra var ívið kald­ari á Ak­ur­eyri en nú.

Í Stykk­is­hólmi var meðal­hiti 1,0 stig, 2,4 stig­um ofan meðallags 1961 til 1990. Á Höfn í Hornafirði var meðal­hit­inn 4,1 stig og -3,0 stig á Hvera­völl­um. Meðal­hiti hef­ur aldrei orðið svo hár á Höfn – en mæl­ing­ar þar hafa ekki verið sam­felld­ar. Þetta er samt trú­lega hlýj­asti janú­ar í Hornafirði frá 1947 að telja. Hiti hef­ur verið mæld­ur sam­fellt frá 1873 við Beru­fjörð, lengst af á Teig­ar­horni, og hef­ur janú­ar aðeins einu sinni orðið þar hlýrri en nú. Það var 1947.

Aldrei frost á Vatt­ar­nesi

Meðal­hiti mánaðar­ins var hæst­ur í Kvískerj­um í Öræf­um, 3,3 stig. Lægst­ur var meðal­hit­inn á Þver­fjalli -4,0 stig. Í byggð var meðal­hit­inn lægst­ur í Svar­tár­koti -1,5 stig.

Hæsti hiti mánaðar­ins mæld­ist í Skafta­felli þann 24. Á mannaðri stöð mæld­ist hann hæst­ur 8,4 stig á Sauðanes­vita þann 31. Lægsti hiti á land­inu mæld­ist þann 12., -19,0 stig á Brú­ar­jökli.  Í byggð mæld­ist lægsti hit­inn -16,4 stig á Kálf­hóli á Skeiðum þann 11. Á mannaðri stöð mæld­ist hit­inn lægst­ur í Staf­holts­ey, -11,2 stig þann 12.

Það bar til að frost­laust var all­an mánuðinn á Vatt­ar­nesi, lægsta lág­mark var 0,4 stig. Þetta hef­ur aldrei gerst áður hér á landi í janú­ar svo vitað sé. Í Seley fór hiti aldrei niður fyr­ir frost­mark (lægsta lág­mark 0,0) stig, seg­ir í yf­ir­liti Veður­stofu Íslands fyr­ir tíðarfar í janú­ar­mánuði.

Lít­il úr­koma í Reykja­vík en mik­il úr­koma á Ak­ur­eyri

Úrkoma var und­ir meðallagi vest­an- og norðvest­an­lands en yfir því í öðrum lands­hlut­um og sums staðar mikið. Úrkom­an mæld­ist 64,2 mm í Reykja­vík og er það um 15% minna en í meðalári. Í Stykk­is­hólmi mæld­ist úr­kom­an 32,3 mm og er það tæp­ur helm­ing­ur meðal­úr­komu. Úrkoma mæld­ist síðast svo lít­il í janú­ar 2007.

Á Ak­ur­eyri mæld­ist úr­kom­an 80,3 mm og er það nærri því 50 pró­sent um­fram meðallag. Á Höfn í Hornafirði mæld­ist úr­kom­an 369,7 mm. Það er það mesta sem mælst hef­ur á þeim slóðum síðan 2002, en þá var at­hugað í Ak­ur­nesi.

Á all­mörg­um stöðvum aust­an­lands mæld­ist úr­koma meiri í janú­ar en áður á all­mörg­um stöðvum, m.a. yfir 600 mm á Há­nefs­stöðum í Seyðis­firði og yfir 500 mm á Gilsá í Breiðdal. Að sama skapi var sér­lega þurrt víða norðvest­an­lands og trú­lega minni úr­koma en áður hef­ur mælst í janú­ar á fá­ein­um stöðvum. End­an­leg­ar frétt­ir af því verða þó að bíða þess að mæli­skýrsl­ur skili sér.

Sól á Ak­ur­eyri í tvær klukku­stund­ir í janú­ar

Sól­skin í Reykja­vík mæld­ist í 19,3 stund­ir, átta stund­um færri en í meðalári. Á Ak­ur­eyri mæld­ust sól­skins­stund­irn­ar aðeins tvær, fimm færri en í meðalári.

Al­hvítt var fjóra daga í Reykja­vík og er það 11 dög­um færra en að meðaltali 1971 til 2000. Þetta er svipað og verið hef­ur fá­ein und­an­far­in ár að sleppt­um janú­ar 2012. Þá var mun meiri snjór en nú.

Á Ak­ur­eyri var jörð al­hvít all­an mánuðinn, það er átta dög­um um­fram meðallag í janú­ar. Janú­ar hef­ur ekki verið al­hvít­ur á Ak­ur­eyri síðan 1999. Síðan byrjað var að at­huga snjó­hulu á Ak­ur­eyri 1924 hef­ur janú­ar verið al­hvít­ur 21 sinni.

Vind­hraði á land­inu var um 0,4 m/​s yfir meðallagi. Hinn 13. var hvass­asti dag­ur mánaðar­ins en 29. sá hæg­asti.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert