Skipverjar á skuttogaranum Bergey VE-544 urðu varir við loðnu í gærmorgun þar sem þeir voru að veiðum út af Breiðdalsvík á sunnanverðum Austfjörðum.
Tvö norsk loðnuskip, Trønderbas og Slåtterøy, voru komin á svipaðar slóðir í gær í loðnuleit.
„Þetta var nú ósköp lítið, en loðna samt,“ sagði Ragnar Waage Pálmason, afleysingaskipstjóri á Bergey VE-544. „Hún kemur aðallega upp með trollinu. Við sjáum hana ánetjaða og töluvert í þorskinum líka. Hann er orðinn útsprengdur af loðnu. Svo er maður að sjá eina og eina peðru (litla torfu) uppi í sjó. Það er samt ekki mikið sem sést hérna. Okkur finnst loðnan sem kemur upp með trollinu vera frekar smá.“