Mega ekki gefa tannbursta í skólum

Samkvæmt Grunnskólaskrifstofu Reykjavíkur er bannað að dreifa tannverndarvörum í skólum …
Samkvæmt Grunnskólaskrifstofu Reykjavíkur er bannað að dreifa tannverndarvörum í skólum borgarinnar. mbl.is/AFP

Ekki má gefa nemendum í 10. bekkjum grunnskóla Reykjavíkur tannbursta, tannþráð eða aðrar tannverndarvörur á árlegri tannverndarviku sem nú stendur yfir. Grunnskólaskrifstofa borgarinnar leggur bann við því og segir slíkar gjafir brjóta gegn barnalögum. Formaður Tannlæknafélags Íslands segir að um samfélagslegt verkefni sé að ræða.

Tannlæknar og tannlæknanemar hyggjast sækja elstu nemendur grunnskóla landsins heim í þessari viku í tilefni tannverndarvikunnar. Tannlæknafélag Íslands hafði samband við alla innflytjendur og framleiðendur tannlæknavara og bað um tannverndarvörur eins og tannbursta, tannþráð, tannkrem og flúortyggjó til að afhenda nemendunum í fræðslu- og forvarnaskyni. 

Fyrirtækin brugðust vel við og tannlæknanemar útbjuggu 3.500 gjafapoka fyrir 10. bekkingana sem innihalda ýmsan tannverndarvarning. Í morgun var haft samband við Tannlæknafélagið á vegum grunnskólaskrifstofu borgarinnar þar sem gerð var grein fyrir því að samkvæmt barnalögum væri bannað að beina auglýsingum beint að börnum. Reykjavíkurborg hefði lagt á það áherslu við skóla að slíkt væri ekki gert í formi gjafa eða annarrar aðkomu fyrirtækja að skólum.

Sum börn eiga ekki tannbursta

„Hvar á að draga mörkin?“ spyr Kristín Heimisdóttir, formaður Tannlæknafélags Íslands. „Tannverndarvikan er samfélagslegt verkefni og við megum ekki gleyma því að það eru til börn sem eiga ekki tannbursta. Við erum að tala um eitthvað sem er klárlega gott fyrir börnin. Þetta bann er tekið allt of langt, það er eins og fólk sé hætt að hugsa rökrétt. Hvar er skynsemin?“

Að sögn Kristínar var öllum fyrirtækjum á þessu sviði boðin þátttaka. Öllum hafi verið gerð grein fyrir því að það yrði engu einu fyrirtæki hyglað umfram annað og hún segir að um sé að ræða vörur sem tannlæknar mæli virkilega með. 

Erum ekki að gera þetta fyrir okkur

„Við göngum auðvitað ekki gegn lögum og reglum eða boðum og bönnum,“ segir Kristín spurð um hvort Tannlæknafélagið hyggist láta á það reyna að afhenda börnunum vörurnar.  „En við förum hugsanlega með þetta í heimsóknina og svo er það undir hverjum og einum skólastjóra komið hvort þetta hefur verið afhent.

Við erum ekki að gera þetta fyrir okkur. Auðvitað væri langeinfaldast fyrir okkur að vera með fræðsluna og fara; með þessu erum við að gera okkar verkefni flóknari. En okkur langaði virkilega til að gera þetta vel.“

Frétt mbl.is: Borgin leyfir tannburstagjafir

Kristín Heimisdóttir, formaður Tannlæknafélags Íslands.
Kristín Heimisdóttir, formaður Tannlæknafélags Íslands.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert