Aðalheiður Steingrímsdóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara, segist verulega vonsvikin og undrandi eftir fund samninganefndar félagsins við ríkissáttasemjara í morgun. Hún segir viðsemjendur hafa komið óundirbúna á fundinn, það eina sem þeir hafi lagt til hafi verið endurtekið tilboð á 2,8% hækkun eins og á almennum markaði. Trúnaðarmenn í framhaldsskólum verða boðaðir á fund í næstu viku þar sem ákveðið verður með framhaldið.
„Samninganefnd ríkisins sýnir lítinn skilning á alvarleikanum í stöðunni og á því að ræða kjörin í framhaldsskólunum. Það eina sem nefndin kom með á fundinn var afrit af samningnum á almennum markaði,“ segir Aðalheiður.
„Enginn vilji, engar hugmyndir um að þoka samræðum áfram. Ekki neitt í rauninni,“ segir Aðalheiður um framgöngu samninganefndar ríkisins á fundinum. „Ekkert nema ráðleysi, hugmyndaleysi og stefnuleysi.“
Hún segir að á síðasta fundi deiluaðila hafi ríkissáttasemjari mælst til þess að samninganefndin kæmi þannig undirbúin á fundinn í morgun að hún hefði „eitthvað fram að færa“. „En svo var ekki,“ segir Aðalheiður. „Maður hefði haldið að þeir kæmu fram með eitthvað sem ætti við um málefni framhaldsskólans, en ekki sama tilboðið sem við höfum hafnað um 2,8% hækkun eins og á almennum markaði. En þeir komu algerlega tómhentir á fundinn.“
Hún segir að framahaldsskólakennarar hafi lagt fram á fundinum gögn um launaþróun hjá ríkinu, en enginn vilji hafi verið til umræðna um þau, þrátt fyrir óskir kennara þar að lútandi. Sömu gögn hafi verið lögð fram í upphafi samningaviðræðna í byrjun desember.
Fulltrúar Félags framhaldsskólakennara lögðu til í upphafi fundarins að settur yrði verulegur kraftur í deiluna og að fjölga fundum eftir daginn í dag. „Það hlaut engar undirtektir, einu viðbrögðin voru að það væri ekki hægt að hitta okkur fyrr en á mánudaginn kemur. Þarna fór mjög dýrmætur tími til spillis. Þeir sögðust ekki vera klárir í næsta fund fyrr en þá. Ég er verulega vonsvikin.“
Framhaldsskólakennarar hafa nú fundað um sín kjör frá því í byrjun desember með samninganefnd ríkisins, án árangurs, og var deilunni vísað til ríkissáttasemjara í næstsíðustu viku.
Næsti fundur í deilunni hefur verið boðaður næstkomandi mánudag. Aðalheiður segir að trúnaðarmenn í skólunum muni líklega verða boðaðir á fund í næstu viku þar sem farið verður yfir stöðu mála og ákveðið með framhaldið.
Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra sagði fyrr í vikunni að ákveðnar kerfisbreytingar innan framhaldsskólanna, þar á meðal stytting náms, gætu skapað svigrúm fyrir launahækkanir til kennara. Aðalheiður segir það vera „furðulegt innlegg" og helst megi af þessu ráða að ráðherra hafi ekki hugmynd um hvernig kjaraviðræðurnar hafi gengið fyrir sig.
Skiptir það í sjálfu sér miklu máli hvaðan fé til launahækkana kemur? Hvort það er tilkomið vegna kerfisbreytinga á framhaldsskólastiginu eða á einhvern annan hátt? „Já, það skiptir verulegu máli þegar við erum að horfa á að framhaldsskólakerfið er komið að fótum fram. Það er fjársvelt, margir skólar eru nálægt gjaldþroti og frá hruni hafa verið kreistir út úr því 12 milljarðar. Það hafa verið lagðar niður námsbrautir, skorin niður þjónusta við nemendur og skólarnir valda ekki hlutverki sínu samkvæmt lögum. Þegar maður horfir á heildarmyndina er þetta býsna furðulegt innlegg í mjög erfiðar samningaviðræður og þetta ber ekki vott um lausnamiðaða nálgun.“
Aðalheiður bendir á að menntamálaráðherra hafi tvo fulltrúa í samninganefnd ríkisins, því ætti hann að vita hvernig samningaviðræðurnar gangi fyrir sig. „Þegar hann leggur þetta inn í umræðuna í byrjun vikunnar er eins og hann hafi ekki hugmynd um hvernig samningaviðræðurnar hafa gengið. Á virkilega að bæta kjör kennara með því að skera enn meira niður í skólunum?“