Mikið misræmi er milli kunnáttu íslenskra ungmenna þegar kemur að dönsku ritmáli annars vegar og dönsku talmáli hins vegar.
Þetta má m.a. rekja til áherslna í dönskukennslu í íslenskum grunn- og framhaldsskólum en afleiðingin er sú að Íslendingar upplifa vankunnáttu þegar þeir reyna að tjá sig á dönsku.
Þetta var meðal þess sem kom fram í máli Auðar Hauksdóttur, forstöðumanns Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur og dósents í dönsku, á ráðstefnu um nytsemi skóladönskunnar, sem Norræna félagið efndi til í gær, og fjallað er um í Morgunblaðinu í dag. Auður hefur m.a. rannsakað reynslu íslenskra háskólanema í Danmörku, en þeir voru tæplega 2.000 talsins skólaveturinn 2010-2011.