Neil Young og Crazy Horse í Höllinni

Neil Young
Neil Young AFP

Kanadíski tónlistamaðurinn Neil Young mun koma fram á tónleikum í nýju Laugardalshöllinni mánudaginn 7. júlí á All Tomorrows Parties tónlistarhátíðinni. Young kemur fram ásamt hljómsveitinni Crazy Horse en þetta verða fyrstu tónleikarnir á tónleikaferðalagi hljómsveitarinnar.

Tónleikarnir á mánudeginum marka upphafið að tónlistarhátíðinni þar sem m.a. hljómsveitirnar Portishead og Interpol munu einnig koma fram. Dagskráin heldur áfram út vikuna en eftir á að tilkynna hverjir stíga á svið á þriðjudeginum og miðvikudeginum. Sé ætlunin þá að toppa komu Young þarf ekkert minna til en að sameina alla Bítlana en miðasala hefst á mánudag.

Young er 69 ára gamall og hefur á löngum og farsælum ferli sínum gefið út ótal plötur og verið einn helsti lagasmiður sinnar kynslóðar. Árið 1966 stofnaði hann hljómsveitina Buffalo Springfield sem blandaði saman þjóðlagahefðum við skynvillurokk sjöunda áratugarins. Sveitin sem varð geysivinsæl lagði upp laupana árið 1968 sama ár og fyrsta sólaplatan hans kom út sem fékk þá frumlegu nafngift Neil Young.

Síðan hefur hann gefið út fjölmargar plötur bæði einn og í samstarfi aðra sem eru margar hverjar á meðal öndvegisverka í vestrænu rokki. Plötur eins og Harvest, After the Gold Rush eru þar á meðal en jafnframt fyrsta platan sem hann gerði með Crazy Horse árið 1969 sem nefnist Everybody Knows this is Nowhere.   

Á 45 ára ferli hefur hann gefið út 35 hljóðversplötur en von er á nýrri plötu frá honum í mars: A letter home og síðast gaf hann út Phsychadelic Pill árið 2012. Óhætt er að segja að um sannkallaðan hvalreka sé að ræða þar sem um er að ræða einn vinsælasta og virtasta tónlistarmann samtímans sem hefur haldið heilindum sínum sem listamaður á löngum ferli og að Crazy Horse skuli verða með honum á sviðinu er ekki síðra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert