Orðbragð aftur á skjáinn næsta vetur

Bragi Valdimar Skúlason og Brynja Þorgeirsdóttir sjá um þáttinn Orðbragð.
Bragi Valdimar Skúlason og Brynja Þorgeirsdóttir sjá um þáttinn Orðbragð. Þórður Arnar Þórðarson

„Ef ekki hefði verið fyrir norskar og sænskar fyrirmyndir að þáttunum, þá hefðum við aldrei getað gert skemmtiþátt um íslensku,“ segir Bragi Valdimar Skúlason. Bragi og Brynja Þorgeirsdóttir héldu fyrirlestur í dag, þar sem fjallað var um þær góðu viðtökur sem þau fengu við þáttunum. 

„Ég vissi þegar ég sá norsku þættina að þetta myndi virka á Íslandi ef þetta væri nógu vel gert,“ segir Brynja. Orðbragð má enn sjá á vef Ríkisútvarpsins.

„Okkur langaði virkilega að ná í unglingana, því þau horfa mjög lítið á sjónvarp, og finnst það yfirleitt mjög leiðinlegt, sérstaklega að þurfa að bera sig eftir einhverri dagskrá. En þau neyta mjög mikils myndefnis og er mjög myndlæs,“ segir Brynja.

Ný þáttaröð í nóvember

Þau eru þegar byrjuð að vinna að næstu seríu. Kostnaðurinn við þættina er hins vegar mikill, næstum tvöfaldur á við þætti á borð við til dæmis Djöflaeyjuna. „Svo á að gera bók upp úr þessu líka, sem við erum að reyna að berja saman,“ segir Bragi. Bókin kemur út í haust, en næsta þáttaröð Orðbragðs verður unnin í sumar. Þau gera ráð fyrir að fyrsti þátturinn komi út fyrsta sunnudaginn í nóvember, án þess þó að geta fullyrt það. Hún verður jafnlöng og sú fyrsta, sex þættir.

„Það er af nógu að taka, þetta er stór akur af efni og margt sem lenti út af borðinu,“ bæta þau við, en eru hóflega bjartsýn á að þáttaraðirnar verði fleiri en tvær. „Þetta er mjög tímafrekt og tekur lungann úr hálfu ári. Svona þættir hafa oft sinn líftíma, en svo missir fólk bara áhugann. En það er alveg opið.“

Þau voru með á teikniborðinu umfjöllun um bæði íslensku í eyrum útlendinga, dægurlegatexta og fleira sem ekki komst að þar sem þættirnir fylltust strax af efni.

Forgangsatriði að ná unglingunum

„Þessi hópur, unglingarnir, er mjög myndlæs og okkur fannst forgangsatriði að ná þeim. Ef við næðum þeim, þá næðum við restinni. Þess vegna lögðum við áherslu á að fá framleiðanda sem væri jafnmyndlæs og þessi hópur. Það er Konráð Pálmason, þriðji maðurinn í teyminu. Það er erfitt að herma eftir þeim stíl sem unga fólkið er vant. Við erum eldri erum sjáum ekki þessa ýktu liti eða sérstöku klippingu, en þau sjá þetta strax. Konráð gerir það líka,“ segir Brynja.

Hún bendir á lagnakjallarann þar sem Bragi lógaði ofnotuðum orðum, en Konráð „heimtað“ að nota þá staðsetningu, sem svínvirkaði. „Svo var Rúv líka að fá nýja myndavél,“ bætir Bragi við og hlær. „Samt í alvöru, það skipti miklu máli.“

Brynja talar um að gamalt sjónvarpsefni sé í allt öðrum takti, og virki næstum eins og í „slow-motion“ samanborið við nútímasjónvarpsefni. „En það má ekki vera of hratt. Myndavélin er til að mynda nánast alltaf kyrr, þó svo að klippingin sé mjög hröð.“

Taka sér stöðu með áhorfandanum

Hún segir að það hafi verið algjört lykilatriði að „taka sér stöðu með áhorfandanum, en ekki prédika yfir honum.“ Þau tókust á við það eins og ferðalag, frekar en að segja áhorfandanum bara hvernig hlutirnir eru. Þau skipta yfir á klippu úr þættinum þar sem kennari les hrútleiðinlegan texta úr stafsetningarbók, og lítur greinilega niður á nemendur sína.

„Við erum í liði með krökkunum,“ segir Brynja. Hún tekur annað dæmi af sérfræðingatungumáli. Hún segir sérfræðinginn frekar vera vandann frekar en sá sem þarf að skilja það.

„Þessu fólki er svolítil vorkunn, að geta ekki talað skýrt. Með þessu viljum við taka okkur stöðu með áhorfandanum. Svo töluðum við við þekktan málsóða, Andra Frey Viðarsson og komumst að þeirri niðurstöðu að það ætti ekki að flengja fólk fyrir að tala vitlaust. Tungumálið er lifandi og hver og einn á bara tala eins og hann vill. Það er kannski ekkert sem er rétt eða rangt, heldur kannski bara fallegt eða ljótt,“ segir Brynja. „Og Andri talar mjög ljótt,“ bætir Bragi við og glottir.

„Það er ekki hægt að þvinga þetta ofan í grunnskólabörn...og þó. Námsgagnastofnun keypti sýningarréttinn á þáttunum til 10 ára,“ bættu þau við.

Mættu miklum efasendum

Þau segjast hafa mætt miklum efasemdum um ágæti skemmtiþáttar um íslenskt mál, en íslenskuþættir hafa hingað til verið frekar „flösukenndir“ og leiðinlegir.

„Við eigum það sameiginlegt að okkur finnst íslenska mjög skemmtilegt. Við lentum í því að þurfa að tjá okkur á íslensku og þurfum að vinna með það, vekja áhuga fólks á þessu og nota tungumálið. Þetta er stórkostlega skemmtilegt tungumál,“ segir Bragi.

Brynja segir formið hafa verið þannig að það hafi t.d. verið viðtalsbútur í eina mínútu, tvær mínútur í mesta lagi. „Síðan var „sketch“ þar sem við undirstrikuðum það sem kom fram í viðtalinu.“

„Rólex“

Brynju kom mjög á óvart hvað innslagið með Boga Ágústssyni hafi farið nánast samstundis á netið og vakið mikla athygli. „Við reyndum að stýra því hvað fór inn á netið, en netið er bara þannig þjóðbraut að það fer allt þangað inn sem vill.“ Það tók þetta til dæmis hálftíma að fara inn á netið:

„Kannski fannst fólki bara svona fyndið hvernig Bogi segir „lol“,“ segir Bragi. Þau segjast hafa þurft að reyna að snúa á þá fullyrðingu að þættir um íslensku væru leiðinlegir. Þau ákváðu til að mynda að senda þáttinn inn til tilnefningar til Eddu í flokki skemmtiþátta. „Það er svolítið lýsandi fyrir uppleggið hjá okkur, við ætluðum að gera skemmtiþátt, þó svo að fræðsluefnið fylgi kannski með,“ segir Bragi.

Þættina segir Brynja líka hafa það sem hún kallar falinn nördisma og bendir á að skógarþröstur syngur yfir í lok atriðis um Jónas Hallgrímsson, og fyrstu nóturnar úr „Ég bið að heilsa“ voru leiknar.

Mikil og dýr eftirvinnsla

Þau segja að mikil vinna hafi farið í myndvinnsluna og grafík. „Það var grafíkmaður frá Argentínu sem gerði þetta fyrir okkur. Hann skildi í raun ekki mikið í íslensku,“ segir Bragi, en það er óhætt að fullyrða að honum tókst vel upp. Þau segja þó að eftirvinnsla hafi öll verið kostnaðarsöm, en hún hafi verið nauðsynleg til að ná til yngri áhorfenda.

„Við vissum alveg að þetta væri skemmtilegt. Þetta fékk fín viðbrögð frá samstarfsfólki okkar. En viðbrögð við sýningunum fóru fram úr okkar björtustu vonum. Áhorfstölurnar voru mjög háar. Þrír af hverjum fjórum Íslendingum sá að minnsta kosti einn þátt, og meðaláhorfið var 35 til 45%. Þetta er ekki hefðbundin Rúv-aldursdreifing, þar sem hún er mest meðal þeirra elstu. Þetta var með meira áhorf meðal fólks á aldrinum 15 til 25 ára,“ segir Brynja. Meira að segja fimm ára krakkar horfðu á þetta.

„Þetta er ofnotað orð, og ég ætla að lóga því“

„Ég þekki meira að segja dæmi um einn fimm ára sem leikur sér að því að skrifa orð á blað, heldur því uppi og segir: „þetta er ofnotað orð, og ég ætla að lóga því“ og krumpar það heiftarlega saman,“ segir Brynja.

Bragi segi íslenskuna ekki hafa átt upp á pallborðið í sjónvarpi. „Síðast var gerður þáttur 1982 eða 1983, og hann fjallaði um framburð,“ bætir Brynja við.

„Það er verið að vinna kennsluefni upp úr þessu,“ segir Bragi. „Okkur er að vísu ekki treyst fyrir því.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert