„Allt frá því að fyrsta All Tomorrows Parties-hátíðin var haldin hefur það alltaf verið draumur minn að fá Neil Young til að spila,“ segir Barry Hogan stofnandi hátíðarinnar. Aldrei hefur það tekist fyrr en nú og hann á von að erlendir gestir komi sérstaklega til landsins vegna tónleikanna.
Tilkynnt var um komu Youngs til landsins á blaðamannafundi í Kaffivagninum fyrr í dag. Þeir sem eru búnir að tryggja sér miða á hátíðina fá miða á tónleika Youngs á afsláttarkjörum en jafnframt verður hægt að kaupa miða sérstaklega.
mbl.is ræddi við Hogan fyrr í dag um hátíðina og hann segir að enn eigi eftir að tilkynna þekkt alþjóðleg tónlistaratriði sem muni koma fram á Ásbrú í Keflavík en tónleikar Youngs verða í nýju Laugardalshöllinni.
Ólafur Páll Gunnarsson, útvarpsmaður á Rás 2, var einnig staddur í Kaffivagninum en hann er annálaður aðdáandi kanadíska rokkarans og hann segir það vera sérstaklega ánægjulegt að Young muni koma fram með hljómsveitinni Crazy Horse. Hljómsveitin sé gædd einhverjum töframætti sem erfitt sé að setja fingurinn á.